Átta af tíu þingmönnum NA-kjördæmis ákveðnir í að gefa áfram kost á sér

Alþingi.
Alþingi.

Átta af tíu þingmönnum NA-kjördæmis hafa ákveðið að gefa kost á sér í þingkosningum næsta haust en Vikublaðið kannað hug þingmanna kjördæmisins fyrir haustkosningarnar 2021. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og oddviti VG í kjördæminu, hyggst ekki gefa kost á sér. Hann hef­ur setið á Alþingi fyr­ir Norður­lands­kjör­dæmi eystra og síðan Norðaust­ur­kjör­dæmi frá því 1983 og er með lengsta þingreynslu allra nú­ver­andi þing­manna. Þá hefur Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, og oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, enga ákvörðun tekið.

Aðrir ætla að halda áfram. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingkona VG gefur kost á sér og hyggst sækjast eftir oddvitasætinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson oddviti Miðflokksins gefur kost á sér og sömuleiðis Anna Kolbrún Árnadóttir þingkona Miðflokksins.

Logi og Albertína áfram

Logi Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar, ætlar að halda áfram og sömuleiðis Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingkona Samfylkingarinnar. „Eftir að hafa velt þessu töluvert mikið fyrir mér síðustu vikur þá er ég búin að taka ákvörðun um að gefa kost á mér. Það hefur verið mikill heiður að fá að starfa að hagsmunum þessa víðfema kjördæmis og landsins alls auðvitað og ég hef áhuga á að gera það eitt kjörtímabil í viðbót,“ sagði Albertína í svari til blaðsins.

„Enga ákvörðun tekið“

Sem fyrr segir liggur Kristján Þór Júlíusson undir felldi en hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í undanförnum þingkosningum. „Ég hef enga ákvörðun tekið í þessum efnum,“ sagði Kristján Þór í svari til blaðsins. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er hins vegar ákveðinn í að fara áfram. „Ég er ánægður með það hvernig gengið hefur að vinna að framgangi þeirra mála sem ég hef lagt áherslu á og það er af nógu að taka á næstu misserum. Það eru mjög brýn verkefni sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum sem ég vil þátt í að klára íbúum Norðausturkjördæmis og allri þjóðinni til heilla,“ sagði Njáll Trausti í svari til blaðsins.

Þórunn og Líneik áfram

Þórunn Egilsdóttir oddviti Framsóknarflokksins hyggst sækjast eftir endurkjöri og sömuleiðis Líneik Anna Sævarsdóttir þingkona flokksins. Þórunn mun fá samkeppni um efsta sætið þar sem Ingibjörg Isaksen bæjarfulltrúi á Akureyri ætlar að bjóða sig fram í fyrsta sætið fyrir flokkinn.

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast