Atli: Vorum sjálfum okkur verstir

Atli Hilmarsson fer yfir málin með leikmönnum sínum.
Atli Hilmarsson fer yfir málin með leikmönnum sínum.

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var sár og svekktur eftir tap sinna manna gegn HK á heimavelli í kvöld, 25-27, í N1-deild karla í handknattleik. „Við vorum sjálfum okkur verstir í þessum leik. Við fengum fullt af færum sem fóru forgörðum og tæknifeilarnir í sókninni voru alltof margir. Við áttum smá möguleika í restina og sýndum karakter með að koma til baka í þá stöðu en því miður féll þetta ekki með okkur. Við vorum ekki nógu grimmir í vörninni og fengum þar af leiðandi lítið af hraðaupphlaupum. Það var hins vegar margt jákvætt í okkar leik en ansi margt líka sem mátti betur fara. Við missum hausinn í upphafi seinni hálfleiks, sendum boltann í hendurnar á þeim í sókninni og vorum bara áhorfendur í varnarleiknum. Ég prófaði að taka leikhlé en það virkaði ekkert. Sóknarleikurinn var góður stærstan hluta leiksins og markvarslan fín. Sveinbjörn (Pétursson) var að verja vel og slæmt að nýta það ekki betur,“ sagði Atli.

Kristinn Guðmundsson, annar þjálfari HK, var sáttur með tvö dýrmæt stig eftir sigurinn gegn Akureyri. „Að fara héðan með tvö stig er bara geðveikt. Stemmningin hérna í Höllinni er alltaf svakalega góð og ég er stoltur af strákunum að ná að standa þetta af sér.  Stigin tvö er gríðarlega mikilvæg og ég gæti ekki verið ánægðari. Við byrjuðum rólega í leiknum  og það var eins og við værum ekki alveg mættir til leiks. Við héldum okkur hins vegar rólegum og þetta var karakters sigur hér í kvöld. Akureyringar voru klaufar í byrjun seinni  hálfleiks en við klókir og náðum góðri forystu sem dugði til sigurs,“ sagði Kristinn.

Nýjast