Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar var brosmildur eftir afar mikilvægan og dramatískan eins marks sigur gegn Haukum í heimavelli í kvöld í N1-deild karla í handknattleik. Lokatölur urðu 20:19 en úrslitin réðust á lokasekúndum leiksins. Mér fannst við eiga þetta inni eftir því hvernig veturinn hefur þróast. Nú var kominn tími á okkur að fá smá heppni. Við spiluðum frábæra vörn nánast allan tímann og heilt yfir að spila mjög vel. Þeir komu okkur á óvart þegar þeir skiptu út í 6-0 vörn og við vorum lengi að átta okkur á því. En það var frábær karakter í þessu liði í kvöld. Við gáfumst aldrei upp og börðumst um hvern bolta. Það er góður stígandi í liðinu og við erum á góðu róli og til alls líklegir, sagði Atli eftir leik.
Hannviðurkenndi að lokamínúturnar voru taugatrekkjandi. Mér leið ekkert svakalega vel en ég held að við hefðum fengið dæmt víti ef hann hefði klikkað hann Hörður Fannar (Sigþórsson) í lokin. En þessi síðasta sókn var svakalega vel kláruð.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var að vonum súr í leikslok en hann hrósaði meðal annars áhorfendum í Höllinni sem létu vel í sér heyra og mynduðu mikla stemmningu á vellinum. Þetta var alveg hrikalega súrt að tapa þessu svona. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur enda Akureyri með frábært lið og frábær stemmning í húsinu. Akureyringar eiga hrós skilið fyrir þessa umgjörð. Við vorum að spila góða vörn og Birkir Ívar (Guðmundsson) að verja vel í markinu en sóknarleikur var alveg í molum. Við vitum að við erum með unga leikmenn sem geta verið upp og niður. Þeir áttu kannski aðeins of góðan leik gegn Val í bikarnum en þessi leikur ætti að taka menn heldur betur niður á jörðina. En þrátt fyrir þetta vorum við alltaf inni í leiknum og áttum sjens á að klára leikinn í lokin. En það var kannski röð rangra ákvarðanna í lokamínútunum sem varð okkur að falli, sagði Aron.