Atli: Þetta er eitthvað til þess að byggja ofan á

Atli Hilmarsson var ánægður með sína menn í kvöld.
Atli Hilmarsson var ánægður með sína menn í kvöld.

Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar var að vonum ánægður með að landa loksins sigri í N1-deildinni í handknattleik er Akureyri burstaði Gróttu í kvöld með 15 marka mun, 39-24, í Höllinni á Akureyri. Þetta var jafnframt fyrsti sigur norðanmanna síðan í fyrstu umferð.

„Þetta var mjög mikilvægt og gaman að sína svona góðan leik eins og við gerðum í kvöld,“ sagði Atli. Akureyrarliðið sýndi sparihliðarnar í kvöld og minnti spilamennskan á hvernig liðið spilaði síðasta vetur. Markvarsla, vörn og hraðaupphlaup einkenndu spilamennsku liðsins í kvöld. „Loksins náðum við þessu fram sem við erum bestir í. Þetta er klárlega eitthvað til að byggja á í framhaldinu og núna horfum við á bikarleikinn á sunnudaginn gegn FH. Það verður gríðarlega erfitt verkefni en þessi sigur er gott veganesti í þann leik,“ sagði Atli brosmildur eftir leik.

Guðfinnur Kristmannsson þjálfari Gróttu var furðuhress eftir leik miðað við flenginguna sem hans menn fengu í kvöld, en var skiljanlega ósáttur við leik sinna manna. „Ég veit ekki hvað maður getur sagt eftir svona leik. Við vorum bara ömurlegir. Ég veit ekki hvort þetta var einbeitningarleysi eða hvað en hugarfarið var ekki til staðar. Við erum búnir að fara yfir þessi mál hvað eftir annað en það gerist ekkert. Við verðum samt bara að halda áfram og rífa okkur upp fyrir bikarleikinn á mánudaginn,“ sagði Guðfinnur eftir leik.

Nýjast