Atli: Sóknarleikurinn í molum
"Við vorum að spila við frábært lið og vissum það fyrirfram. Það var hins vegar fyrst og fremst sóknarleikurinn í seinni hálfleik sem var á virkilega lágu plani í kvöld sem gerði það að verkum að við fengum ekkert út úr þessu í dag, sagði Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar, eftir tapið gegn FH í kvöld í N1-deild karla. Eftir frábæra byrjun missti Akureyrarliðið dampinn og FH vann að lokum fjögurra marka sigur en lokatölur í Höllinni í kvöld urðu 20-24.
Þegar lið nær svona byrjun eins og við í kvöld er erfitt að fylgja því eftir. Við fórum að taka sénsa sem gengu ekki og við vorum alltof hægir í sókninni og fáum á okkur klaufamörk. Ég var ósáttur við varnarleikinn í fyrri hálfleik og í þeim seinni, þótt að hann hafi verið fínn á köflum. Það er líka vont að við erum að fá fína markvörslu en náum ekki að nýta það í hraðaupphlaup, sagði Atli.
Baldvin Þorsteinsson fyrirliði FH sá fram á góða ferð heim eftir sætan sigur á erfiðum útivelli í kvöld. Það er frábært að fá tvö stig hér í kvöld. Við vorum betri en byrjuðum reyndar skelfilega. Við höfum fulla trú á þessum mannskap sem við höfum og við vorum ekkert farnir að örvænta þarna í byrjun. Við fengum frábæra markvörslu og sýndum í dag hversu megnugir við erum," sagði Baldvin.