Atli Már ráðinn þjálfari knattspyrnuliðs Magna

Atli Már Rúnarsson hefur verið ráðinn þjálfari knattspyrnuliðs Magna á Grenivík en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í dag. Atli Már er ekki ókunnugur á Grenivík, því hann þjálfaði Magna með góðum árangri í þrjú tímabil, á árunum 2006-2008. Magni leikur í 3. deild að ári en liðið komst í undanúrslit í ár og var aðeins hársbreidd frá því að komast upp í 2. deild.
Atli Már segir að það leggist mjög vel í sig að taka við Magna á ný. "Á Grenivík hefur mér liðið best sem þjálfara," segir Atli. Hann segir markmiðið að styrkja liðið og fara upp um deild að ári. Atli hefur verið markvörður á sínum knattspyrnuferli og hann ætlar að æfa og vera til taks ef á þarf að halda en í marki Magna hefur staðið ungur og efnilegur markvörður, Hjörtur Heimisson.
Atli hefur þjálfað Dalvík/Reyni sl. tvö ár með mjög góðum árangri. Liðið komst upp í 2. deild í fyrrahaust og liðið var mjög nálægt því að komast upp í 1. deild nú í haust. Áður en Atli fór til Dalvíkur þjálfaði hann hjá Þór. Atli fór með lið Magna upp í 2. deild á sínu fyrsta ári með liðið 2006, sem þá var 10 liða deild og þar lék liðið næstu tvö árin undir hans stjórn. Magni féll aftur í 3. deild 2009 og hefur leikið þar síðan. Síðustu tvö ár hefur Magni komist í úrslitakeppni 3. deildar en vantað herslumuninn á að tryggja sér sæti í 2. deild. Atli tekur við stöðunni af Hannesi Jóni Jónssyni, sem þjálfað hefur á Grenivík sl. tvö ár.