Atli liggur undir feldi
Knattspyrnumaðurinn Atli Sigurjónsson, leikmaður Þórs, liggur nú undir feldi og íhugar framtíð sína. Atli reiknaði með því að fara aftur út til Hollands núna í október til æfinga með NEC Nijmegen en ekkert verður af því í bili að hans sögn. Hann segist ekki vera búinn að taka ákvörðun um hvar hann muni spila næsta sumar, en Þór féll sem kunnugt er niður í 1. deild í sumar.
Það er allt eins líklegt að ég spili með Þór næsta sumar en ég held bara öllu opnu eins og er. Ég er að skoða mín mál og það kemur bara síðar í ljós hvað verður, segir Atli. Nokkur lið hafa spurst fyrir um Atla, þar á meðal úrvalsdeildarfélög, en Atli vill þó ekkert gefa upp um hvaða lið það eru. Það er ekki alveg tímabært að ræða það enda er ekkert farið af stað ennþá," segir hann.