Atli Hilmarsson mun hætta sem þjálfari Akureyrar í handknattleik eftir úrslitakeppnina í N1-deild karla í vor. Þetta staðfesti hann við Vikudag í dag. Samningur Atla við félagið rennur út eftir tímabilið og segist hann ætla að taka sér frí frá þjálfun. Þetta er orðinn langur tími og fínt að taka pásu núna. Ég er búinn að eiga frábæran tíma hérna á Akureyri en fjölskyldan er öll fyrir sunnan og þetta er ekki hægt endalaust, sagði Atli, sem hefur stýrt Akureyrarliðinu sl. tvö tímabil.
Hann segist stefna að því að gera Akureyringa að Íslandsmeisturum áður en hann kveður félagið, en norðanmenn mæta FH í undanúrslitum N1-deildarinnar seinni part mánaðarins. Það yrði frábær endir. Við vorum nálægt titlinum í fyrra og stefnum á að gera betur í ár, sagði Atli. Ekki er ljóst ennþá hver verður eftirmaður Atla hjá Akureyri.