Atli á leiðinni til Hollands

Hollenska úrvalsdeildarliðið N.E.C. Nijmegen hefur boðið Atla Sigurjónssyni leikmanni Þórs að koma til æfinga hjá liðinu. Atli mun fara utan seinni partinn í ágúst og æfa með liðinu í viku. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs. Hollenska liðið hefur haft Atla undir smásjánni í töluverðan tíma og hafa menn á vegum félagsins m.a. komið hingað til lands í sumar og fylgst með tveimur leikjum Þórs, en Atli hefur staðið sig vel með Þór í Pepsi-deildinni í sumar. 

Atli, sem er tvítugur, æfði með þessu sama liði fyrir fáeinum árum ásamt Aroni Einari Gunnarssyni. Óvíst er hvort Atli muni missa af einhverjum leikjum Þórs í Pepsi-deildinni á meðan Hollands dvölinni stendur.

Nýjast