Atkvæðagreiðsla um sameiningu fer fram í júní

Mývatn. Mynd:skutustadahreppur.is
Mývatn. Mynd:skutustadahreppur.is

Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa samþykkt að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna fari fram þann 5. júní 2021.

Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna var skipuð í júní 2019 og hefur síðan þá komið saman á 18 bókuðum fundum. Nefndin skipaði fimm starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð. Nefndin skilaði áliti sínu til sveitarstjórna þann 9. mars síðastliðinn. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á www.thingeyingur.is

Atkvæðagreiðsla um sameiningu var samþykkt á sveitarstjórnarfundum í vikunni þar sem bæði sveitarfélög skoruðu jafnframt á Alþingi og ríkisstjórn að bæta samgöngur innan svæðisins. Að sérstök áhersla verði lögð á bundið slitlag á héraðs- og tengivegum. Að flýta breikkun einbreiðra brúa yfir Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum á þjóðvegi 1 og á tengingum milli byggða, til dæmis um Engidalsveg. Þá leggja sveitarstjórnir áherslu á að öruggar samgöngur verði tryggðar innan svæðisins og við nærliggjandi þjónustukjarna, svo sem um Ljósavatnsskarð og að það verði hugað að endurskipulagningu almenningssamgangna þannig að þær þjóni hagsmunum íbúa svæðisins.

Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit hafa átt í miklu samstarfi sín á milli síðustu ár. Sveitarfélögin eiga formlegt samstarf um skipulags- og byggingarmál og brunavarnir ásamt ýmsum samstarfsverkefnum. Í Skútustaðahreppi búa um 500 íbúar og í Þingeyjarsveit tæplega 900 íbúar.


Athugasemdir

Nýjast