Atkvæðagreiðsla um fjáraukalög verður á morgun
Þingfundi er lokið á Alþingi en til stóð að lokaumræða um fjáraukalög fyrir þetta ár stæði fram á kvöld. Atkvæðagreiðsla um kvöldfund var hins vegar ógild vegna ónógrar þátttöku en þingmenn stjórnarandstöðunnar gengu út þegar atkvæðagreiðslan stóð yfir og aðeins tveir þingmenn tóku til máls um frumvarpið. Atkvæðagreiðsla verður á morgun.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu harðlega, að afgreiða ætti fjáraukalagafrumvarpið nú í ljósi þess, að þingmenn hefðu ekki haft tækifæri til að kynna sér gögn, m.a. í tengslum við sölu á eignarhluta Byrs hf. til Íslandsbanka. Þá væri beðið skýrslu Ríkisendurskoðunar um Vaðlaheiðargöng.
Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna lýstu því yfir að þeir myndu ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist einfaldlega lýsa frati á vinnubrögð meirihlutans á Alþingi í tengslum við fjáraukalögin. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að ekki væri hægt að taka þátt í þessu rugli lengur. Atkvæðagreiðslan um kvöldfund var síðan ógild eins og áður sagði. Þriðja umræða um frumvarpið hófst í kjölfarið og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar, gerði grein fyrir áliti nefndarinnar um fjáraukalagafrumvarpið. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hélt stutta ræðu og þá var mælendaskrá tæmd og fundi slitið. Þetta kemur fram á mbl.is.