Vegna fréttar sem birtist á vef Mannlífs í gær um súpufund sem haldinn var á vegum íþróttafélagsins Þórs og veitingastaðarins Greifans á Akureyri, hafa skipuleggjendur sent frá sér athugasemd. En Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ var gestur fundarins. Í frétt Mannlífs er því haldið fram að Vanda hafi neitað að svara spurningum frá móður Arons Einars Gunnarssonar og í kjölfarið hafi soðið upp úr á fundinum.
Í athugasemdinni sem lesa má í heild sinni hér að neðan, er því hafnað að upp úr hafi soðið á fundinum.
Óhjákvæmilegt er að gera athugasemdir við frétt sem birtist á vef Mannlífs í dag, 23. febrúar, og fleiri fjölmiðlar hafa vitnað til.
Í fréttinni er greint frá súpufundi sem undirritaðir skipulögðu fyrir hönd íþróttafélagsins Þórs og veitingahússins Greifans í síðustu viku.
Fyrirsögn fréttar Mannlífs er: Upp úr sauð á fundi Vöndu hjá knattspyrnudeild Þórs: Móðir Arons Einars fékk engin svör
Fréttin hefst á þessum orðum: Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, heimsótti á dögunum súpufund íþróttafélagsins Þórs á Akureyri og var tilefnið framboð hennar til stjórnar KSÍ sem fram fer í lok mánaðarins.
Mannlíf segir að fjölmennt hafi verið á fundinum, sem er sannleikanum samkvæmt. Jafnframt að Jóna Emilía Arnórsdóttir, móðir Arons Einars Gunnarssonar, landsliðsmanns í knattpsyrnu, hafi verið á meðal fundargesta. Það er einnig hárrétt, svo og að hún hafi lagt spurningar fyrir formann KSÍ.
Síðan segir í frétt Mannlífs: Samkvæmt heimildarmanni Mannlífs, sem var á meðal gesta, segir móður Arons Einars hafa spurt einfaldra spurninga en Vanda hafi ekki viljað svara þeim. „Þetta var hálf kjánalegt hjá henni Vöndu því það eina sem Jóna Emilía vildi fá á hreint var hvort Vanda hafi á sínum tíma hringt í Aron Einar. Vanda vildi ekki svara þessari spurningu. Þeirri næstu var líka ekki svarað en þá spurði móðir Arons Einars hvort hann fengi ekki inn í landsliðið aftur þegar málið gegn syni hennar yrði fellt niður.
Sigfús Ólafur Helgason
Nói Björnsson
Páll Jóhannesson