Magnús Þorsteinsson keypti Landsbanka Íslands ásamt Björgólfi Guðmundssyni og syni hans Björgólfi Thor Björgólfssyni árið 2002. Auk þess er Magnús fyrrverandi stjórnarformaður og eigandi Eimskipa. Félag í eigu Magnúsar keypti BOM-fjárfestingar af Baldri Guðnasyni, fyrrverandi forstjóra Eimskips, og félaga hans síðla árs 2007. Magnús skrifaði upp á 930 milljóna króna sjálfskuldarábyrgð í janúar á síðasta ári vegna ríflega eins milljarða króna láns Straums-Burðarás til BOM árið 2005.
Það er vegna vanefnda Magnúsar á umræddu láni að Straumur-Burðarás höfðaði innheimtumál á hendur honum í Héraðsdómi Norðurlands eystra í október. Lögmaður Magnúsar krafðist sýknu á þeim grundvelli að Magnús væri ekki skuldbundinn af ábyrgðaryfirlýsingunni. Lögmaður Straums krafðist þess svo í febrúar að eigur Magnúsar yrðu kyrrsettar til tryggingar skuldinni. Þeirri aðgerð lauk 20. febrúar síðastliðinn án þess að Magnús benti á eignir til tryggingar.
Í kjölfar þess sendi lögmaður Straums héraðsdómi kröfu, um mánaðamótin febrúar mars, að bú Magnúsar yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Rúmum mánuði síðar, eða 7. apríl síðastliðinn, færði Magnús lögheimili sitt frá Akureyri til Rússlands. Lögmaður hans hélt því fram ekki væri hægt að taka bú Magnúsar til gjaldþrotaskipta þar sem lögheimili hans væri ekki lengur skráð hér á landi. Skemmst er frá því að segja að héraðsdómur féllst ekki á það og úrskurðaði Magnús gjaldþrota í dag en hvorki hann né lögmaður hans voru viðstaddir. Hann hefur nú tvær vikur til að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Gjaldþrotalögin gera ekki greinarmun á því hvort eignir viðkomandi eru innan lands eða utan. Þetta kemur fram á vef RÚV.