Ástæða til bjartsýni með áframhaldandi sölu og kökubasara kvenfélaganna
Ráðherra, Jón Bjarnason, þakkar KÍ fyrir hvatninguna og segir málið þegar vera í undirbúningi í ráðuneyti sínu og að það verði að öllu forfallalausu lagt fram í byrjun næsta þings nú í haust. - Nýtt þing verður sett þann 1. október nk. og bindur Kvenfélagasambandið miklar vonir við að þetta mál fái brautargengi á þinginu.
Áskorun Kvenfélagasambands Íslands er svohljóðandi: „Stjórnarfundur Kvenfélagasambands Íslands, haldinn 8. september 2011 á Hallveigarstöðum beinir eftirfarandi tilmælum til ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála: "Kvenfélagasamband Íslands hvetur ráðherra til að leggja fram breytingar á matvælalögum, nr. 93/1995 sem koma í veg fyrir að kvenfélögin í landinu geti elft starf sitt með bakstri og sölu til fjáraflana. Kvenfélagasambandið hvetur ráðherra til að breyta lögunum þannig að félagasamtök geti áfram boðið matvöru til neytenda í þágu góðgerðarmála. Í eitthundrað og fjörutíu ára sögu kvenfélaganna hefur það sýnt sig að framlög þeirra skipta sköpum."
Eins og flestum er kunnugt fengu konur á Akureyri ekki leyfi til að selja múffur í góðgerðarskyni um síðustu verslunarmannahelgi eins og þær gerðu í fyrra, þar sem þær voru bakaðar í heimahúsi en ekki viðurkenndu eldhúsi. Konurnar gripu þá til þess ráðs að bjóða upp á lautarferð í Lystigarðinum á Akureyrarvöku, þar sem gestir og gangandi gátu smakkað fallega skreyttar múffur og styrkja um leið gott málefni.