Ásprent Stíll ætlar sér stóra hluti á fjölmiðlamarkaði
Ásprent Stíll á Akureyri sem rekið hefur prentþjónustu um árabil hefur verið að feta sig í auknum mæli inn á fjölmiðlamarkaðinn. Allir þekkja Dagskrána sem komið hefur út allar götur síðan 1968, en fyrir nokkrum árum keypti fyrirtækið frétta og mannlífsblaðið Vikudag. Blaðið kemur út vikulega og er selt í áskrift og í lausasölu á Akureyrarsvæðinu. Á síðasta ári festi fyrirtækið svo kaup á Skarpi og Skránni sem eru sambærileg blöð við Vikudag annars vegar og Dagskrána hins vegar en eru gefin út og dreift á Húsavík.
Áform fyrirtækisins eru þó enn meiri og ætlar það sér frekari sigra á fjölmiðlamarkaði. „Já við höfum undanfarin ár verið að styrkja okkur verulega þar. Fyrst með kaupum á Vikudegi og síðan með kaupum á Skarpi og Skránni á Húsavík. Í framhaldinu fór svo vefurinn í loftið sem tengir alla okkar miðla saman og flytur fréttir og fjallar um mannlífið á svæðinu,“ segir G. Ómar Pétursson framkvæmdastjóri Ásprents Stíls í samtali við Vikudag.is.
Leggja ríkari áherslu á netið
Hann segir jafnframt að það hafi sárlega vantað öflugan fréttavef á svæðið. „Þar er nánast alveg óplægður akur, bæði hvað varðar fréttir og fréttatengt efni en ekki síður hvað varðar auglýsingar. Hér hefur skort vettvang þar sem auglýsendur geta komið auglýsingum á framfæri á daglegum grunni. Þó svo að auglýsingamiðlarnir okkar, Dagskráin og Skráin hafi eflst mjög undanfarin ár, þá eru kröfur markaðarins að breytast og hraðinn orðinn meiri. Það þarf því meira til en bara vikulega útgáfu til að sinna þörfum auglýsenda enda sýna rannsóknir að hlutur vefauglýsinga fer stækkandi. Þar eru mikil tækifæri sem við ætlum okkur að grípa,“ segir G. Ómar og bætir við: „Að sama skapi eru kröfur fólks um fréttir og upplýsingar að breytast. Nú þarf allt að komast í loftið um leið og það gerist. Þar kemur vefurinn sterkur inn. Á móti kemur að vikublöðin okkar flytja nú meira af mannlífsefni.“.
G. Ómar segir að vefnum sem í dag fékk nýtt nafn; Vikudagur.is hafi verið mjög vel tekið frá því hann fór fyrst í loftið. „Sérstaklega hefur heimsóknum fjölgað undanfarna mánuði. Við tókum þá stefnu í vor að auka vægi frétta á vefnum og síðan þá hefur hann verið á góðri siglingu,“ segir hann.
Áður hét umræddur vefur Dagskráin.is, en aðspurður segir Ómar að ástæðan fyrir nafnabreytingunni sé að styrkja tenginguna við Vikudag. „Með auknu vægi frétta- og mannlífsefnis á vefnum lá beinast við að tengja vefinn Vikudegi. Við erum með sömu blaðamenn sem vinna efni í báða miðla og eðlilegt að vitnað sé til frétta í miðlunum undir sama nafni. Vikudagur.is mun styrkja blaðið, og öfugt, bæði varðandi efni og tækifæri á auglýsingamarkaðnum“
Vefurinn hefur verið að taka talsverðum breytingum undanfarna daga, bæði hvað varðar útlit og efnistök, þar má m.a. nefna sérstakan kosningavef sem nú er kominn í loftið. „Já það hafa orðið miklar breytingar á vefnum undanfarna daga. Við erum að bæta við nýju efni, m.a. umfjöllun um komandi kosningar. Þar ætlum við að vera í forystu með fréttir af kosningabaráttunni í Norðausturkjördæmi, greinar og pistla frá frambjóðendum og vonandi verða líka einhverjar uppákomur sem skemmtilegt verður að segja frá,“ segir G. Ómar að lokum, en leggur áherslu á að vefurinn, sem og aðrir miðlar fyrirtækisins, séu í stöðugri þróun og það sé því lifandi ferli að uppfæra þá og halda þeim ferskum.
.