Ásprent selur frá sér miðlastarfsemi sína og Ísafoldarprentsmiðja kemur inn í prenthluta Ásprents.

Miðlarnir verða gefnir út í sömu mynd áfram og  Ásprent sér áfram um prentun þeirra.
Miðlarnir verða gefnir út í sömu mynd áfram og Ásprent sér áfram um prentun þeirra.

 

Ásprent-Stíll ehf. hefur komist að samkomulagi við Útgáfufélagið ehf. um kaup á miðlastarfsemi Ásprents en undir hana fellur útgáfa á Dagskránni, Skránni og Vikublaðinu. Verða miðlarnir gefnir út í sömu mynd áfram og mun Ásprent áfram annast prentun þeirra.

Samhliða þessari sölu mun Ísafoldarprentsmiðja koma inn í hluthafahóp Ásprents með það að markmiði að efla framleiðslu og vöruframboð Ásprents. Íslenskur prentiðnaður hefur verið undir miklum þrýstingi vegna breyttrar eftirspurnar og erlendrar samkeppni. Markmið viðskiptanna er að hagræða í prentrekstri Ásprents, auka við þjónustuframboð á starfsvæði félagsins á Norðurlandi og tryggja áframhaldandi öfluga prentþjónustu á Norðurlandi. Með tilkomu Ísafoldarprentsmiðju í hluthafahóp Ásprents verður til öflugri þjónustuaðili í prenti sem getur boðið fjölbreyttari lausnir í prentþjónustu sem byggir á áralangri reynslu og þekkingu beggja aðila.

 

„Innkoma Ísafoldarprentsmiðju í hluthafahóp Ásprents-Stíls skapar mikil tækifæri til að veita fjöbreyttari  prentþjónustu á Norðurlandi og mæta þannig betur kröfum markaðarins.  Ég er sannfærður um að þessar breytingar verði hagfelldar fyrir bæði Ásprent og viðskiptavini fyrirtækisins.  Með þessum breytingum skapast einnig tækifæri til þróunar þeirra miðla sem nú flytjast yfir í sérstakt félag.“ segir Jón Steindór Árnason, framkvæmdastjóri Ásprents-Stíls ehf.

Kristþór Gunnarsson framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju segir að aukið samstarf Ísafoldar og Ásprents muni styrkja bæði félögin og bæta vöruframboð þeirra.  Við höfum í gegnum árin átt farsælt samstarf við starfsfólk Ásprents og hlökkum til að taka í árarnar með þeim“  segir Kristþór.

Ásprent-Stíll var stofnað í núverandi mynd 2003 með sameiningu prentsmiðjunnar Ásprents og auglýsingastofunnar og skiltagerðarinnar Stíls. Síðan þá hafa nokkur prentfyrirtæki runnið inn í Ásprent og má þar nefna Alprent, Límmiða Norðurlands, Prenttorg og Stell.

Ísafoldarprentsmiðja rekur stofnun sína aftur til 1877 og er því elsta prentsmiðja landsins. Fyrirtækið rekur eina stærstu prentsmiðju landsins í Garðabæ þar sem hún þjónustar viðskiptavini sína með ýmsar prent- og umbúðalausnir.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast