Ásprent afhent Umhverfisvottun Svansins

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og G. Ómar Pétursson við afhendingu Svansins.
Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar og G. Ómar Pétursson við afhendingu Svansins.

Ásprent hefur fengið afhenta Umhverfisvottun Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar afhenti G. Ómari Péturssyni framkvæmdastjóra Ásprents vottunina við athöfn í höfuðstöðvum Ásprents á Akureyri. Ásprent er 35. fyrirtækið á Íslandi sem hlýtur Svansvottun. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og jafnframt þekktasta merkið. Strangar kröfur Svansins tryggja að Svansmerkt vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna.

„Afhending Svansvottunarinnar er staðfesting á vinnu sem starfsfólk Ásprents hefur unnið á undanförnum árum og miðar að því að takmarka sóun, flokka úrgang og tryggja hámarks nýtingu á hráefni. Það er kærkomið að fá vottunina afhenta og geta þar með boðið viðskiptavinum vöru og þjónustu sem tryggt er að unnin er með það að markmiði að takmarka umhverfisáhrif,“ segir G. Ómar Pétursson.

Í kröfum Svansins eru gerðar strangar kröfur um efnainnihald og lágmörkun á notkun hættulegra efna við þjónustu og framleiðslu vöru. Allir þættir lífsferils vörunnar eru skoðaðir og efnainnihald og umhverfisáhrif hvers þáttar er metið. Til þess að vara eða þjónusta geti hlotið Svansvottun verður Norræna Umhverfismerkjanefndin að hafa mótað kröfur fyrir viðkomandi vöru- eða þjónustuflokk.

 

Nýjast