ÁRSÆLL OG HERMÍNA HLUTU STYRK FRÁ JAFNRÉTTISSJÓÐI ÍSLANDS
Tveir starfsmenn Háskólans á Akureyri hlutu styrk úr Jafnréttissjóði Íslands við hátíðlega athöfn í Iðnó 19. júní. Þetta er í fyrsta sinn sem styrkir eru veittir úr Jafnréttissjóði Íslands en sjóðurinn var stofnaður fyrir ári síðan, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Tæplega 100 milljónir króna voru til úthlutunar og voru styrkir veittir til verkefna og rannsókna sem miða að því að efla jafnrétti kynjanna.
Styrkþegar og verkefni þeirra eru:
Ársæll Már Arnarsson, prófessor við félagsvísindadeild, hlaut styrk að upphæð 1.200.000 kr. til verkefnisins „Jafnrétti og íslenskir unglingar“.
Markmið verkefnisins eru fjögur: Í fyrsta lagi að rannsaka breytingar á viðhorfum unglinga til jafnréttismála. Í öðru lagi að skoða áhrif foreldraorlofs á tengsl unglinga við foreldra. Í þriðja lagi að skoða nánar kynferðislegt ofbeldi og áreitni gagnvart unglingum og í fjórða lagi að greina jafnréttishugmyndir unglinga niður á skóla og skapa þar með möguleika til þess að árangursmæla mismunandi fræðsluleiðir í þessum efnum.
Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við kennaradeild, hlaut styrk að upphæð 2.000.000 kr. til verkefnisins „Meistaranám: Námsframvinda og atvinnutækifæri á landsbyggðunum“.
Rannsóknin miðar að því að kanna hvaða meginþættir hafa áhrif á námsframvindu nemenda sem stunda meistaranám í Háskólanum á Akureyri og atvinnutækifæri á landsbyggðinni að námi loknu. Hvað námsframvindu varðar verða kannaðir hvaða þættir standa helst í vegi eðlilegrar námsframvindu og hvað hamlar því að fólki takist að ljúka námi. Í þessu sambandi verður kynjajafnrétti útgangspunktur. Meðumsækjandi og rannsakandi er Anna Ólafsdóttir, dósent við kennaradeild HA
Háskólinn á Akureyri tengist einnig tveimur öðrum verkefnum sem hlutu styrk:
Jafnréttisstofa / Arnfríður Aðalsteinsdóttir – 3.000.000 kr. – „Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir“
Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir er verkefni sem miðar að því að vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla í námi og starfi. Verkefnið er bundið við Norðurland eystra vegna nálægðar Jafnréttisstofu við Háskólann á Akureyri, önnur skólastig og atvinnulíf. Þessi afmörkun gerir að verkum að auðveldara verður að halda utan um verkefnið, mæla árangur og fylgja því eftir. Markmiðið er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla.
Soffía Gísladóttir – 3.000.000 kr. – „Kvenna-vinna: Að búa til verðskulduð atvinnutækifæri fyrir kvenkyns innflytjendur“
Markmið verkefnisins er að finna fyrirstöðu og galla til að greina hvernig og hversvegna konur af erlendum uppruna lenda í og haldast í störfum sem eru undir þeirra getu og kunnáttu sem jafnframt er minna greitt fyrir. Þróa stuðningsþjónustu í því skyni að hafa á boðstólum hjálp og ráðleggingar til samþættingar á vinnumarkaði kvenna. Stuðla að viðurkenningu á menntun erlendis frá. Tengja konur af erlendum uppruna við svæðisbundna framkvæmdaaðila og atvinnurekendur. Verkefnið er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunnar, Háskólans á Akureyri og Alþjóðastofu Akureyrar.