Árni Pétur leikur í Hamingjudögum í Hofi

Enginn annar en stórleikarinn Árni Pétur Guðjónsson leikur á móti Eddu Björgu Eyjólfsdóttur í verkinu Hamingjudagar sem sýnt verður í Black Box í Menningarhúsinu Hofi í byrjun september. Frumsýning verður þann 2. september  en aðeins verða tvær sýningarhelgar á Akureyri áður en sýningar halda áfram í Borgarleikhúsinu. 

Árni Pétur hefur leikið í fjölda kvikmynda á borð við Agnes, Sódóma Reykjavík, Stella í Orlofi, Tár úr steini og Vandarhögg eftir Hrafn Gunnlaugsson en sú var tekin upp á Akureyri. Hann hefur einnig leikið í fjölda uppsetninga í leikhúsunum og þar á meðan einleiknum Svikarinn sem færði honum tilnefningu til Grímunnar, Rómeó og Júlíu með Vesturporti og Svört Kómedía hjá Leikfélagi Akureyrar í leikstjórn Maríu Sigurðardóttur. Að ógleymdri sprenghlægilegu sjónvarpsseríunni Hæ Gosa sem öll var tekin upp á Akureyri. Svo er ekkert verra að hann á ættir að rekja hingað norður en afi hans, Pétur Sigurgeirsson, var frá Oddstöðun í N-Þingeyjarsýsu.

Hamingjudagar eða Happy Days er eftir heimsfræga, írska nóbelsverðlaunaleikskáldið Samuel Beckett og fjallar um Vinní, frægustu kvenpersónu Becketts. Vinní er ákveðin í því að finnast lífið hamingjuríkt og fallegt, þrátt fyrir að útlitið sé allt annað en bjart. Verkið fjallar um takmarkalausan lífsvilja manneskjunnar og ódauðleika bjartsýninnar og er áreiðanlega lang skemmtilegasta leikrit nóbelshöfundarins sem lætur gamminn geisa með hrífandi húmor, visku og ólíkindi.


Athugasemdir

Nýjast