Arion banki býður hagstæð óverðtryggð íbúðalán
Um tvennskonar óverðtryggð lán er að ræða. Annars vegar lán sem nema allt að 60% veðhlutfalli fasteignar, bera 6,45% fasta vexti í fimm ár og eru til 25 eða 40 ára. Hins vegar viðbótarlán sem nema frá 60% til 80% veðhlutfalli fasteignar, bera 7,55% fasta vexti i fimm ár og eru til allt að 25 ára. Til að eiga kost á láni þurfa viðskiptavinir að standast greiðslumat bankans.
Hér er á ferðinni nýjung á íslenskum fjármálamarkaði þar sem binding hagstæðra, óverðtryggðra vaxta til fimm ára hefur ekki áður boðist lántakendum. Þar að auki geta viðskiptavinir að fimm árum liðnum valið á milli annarra kosta, svo sem að breyta láninu í verðtryggt lán eða greiða það upp án sérstaks uppgreiðslugjalds.
Með því að bjóða upp á fasta vexti til fimm ára og úrval valkosta að þeim tíma liðnum er komið til móts við sjónarmiðið um aukið fjárhagslegt öryggi lántakenda. Breytilegum vöxtum fylgir ákveðin áhætta fyrir lántakendur þar sem greiðslubyrði getur hækkað umtalsvert á skömmum tíma með hækkandi vaxtastigi. Fimm ára binding vaxta takmarkar þannig áhættu lántaka varðandi þróun vaxta á því tímabili.
Óverðtryggð lán eru góður kostur fyrir þá sem ráða við þyngri greiðslubyrði en fylgir hefðbundnum verðtryggðum lánum. Einn helsti kostur þeirra umfram verðtryggð lán er að eignamyndun verður umtalsvert hraðari með óverðtryggðum lánum en með verðtryggðum lánum.
„Við teljum þetta mikilvægt skref í þróun þeirra fjármögnunarkosta sem standa íbúðarkaupendum til boða og erum ánægð að geta riðið á vaðið með þessa nýjung. Við höfum fundið fyrir áhuga hjá viðskiptavinum okkar á að til staðar séu raunhæfir fjármögnunarkostir í stað hinna hefðbundnu verðtryggðu kosta. Með því að binda vexti í 5 ár - vexti sem eru hagstæðir fyrir lántakandann - verða óverðtryggð lán að raunverulegum valkosti fyrir húsnæðiskaupendur. Við erum sannfærð um að viðskiptavinir okkar muni skoða þennan valkost vandlega þegar kemur að því að fjármagna kaup á húsnæði eða við endurfjármögnun á eldri lánum," segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á vef bankans.