Árið senn á enda er

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar

Nú þegar hillir undir að árið renni sitt skeið er gott að setjast niður og líta um öxl, skoða það sem vel hefur farið á árinu og það sem hefur áunnist í stóru og smáu.

Ég er svo lánsöm að  í starfi mínu sem þingmaður fæ ég að kynnast fjölbreyttum verkefnum, vera í góðum tengslum við kjósendur og fólk í mínu kjördæmi. Það er alltaf ánægjulegt að ferðast um kjördæmið, kynnast nýju fólki og viðhalda góðum tengslum. Á ferðum mínum heyri ég að öll erum við samróma um það að vilja það besta fyrir okkar samfélag.

Í starfi mínu á árinu sem þingmaður og formaður fjárlaganefndar eru mörg mál sem standa upp úr og bara til að stikla á stóru langar mig til að nefna nokkur mál sem ég tel vera til mikilla bóta fyrir okkur öll. 

Viðspyrna hagkerfisins hefur verið góð frá því að draga tók úr áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru og horfurnar á næsta ári góðar. Fjárlögin sem við afgreiddum nú á þinginu í desember styðja svo um munar við fólk og mikilvæga innviði á komandi ári. Frá árinu 2020 nemur aukning til heilbrigðismála 53 milljörðum að raungildi og til sjúkrahúsþjónustu um 4,5 milljörðum að raunvirði frá núgildandi fjárlögum. Þessir miklu fjármunir eru til að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnananna og halda áfram að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Ég tel þó afar mikilvægt að fylgjast vel með þróun útgjalda heilbrigðisstofnanna á landsbyggðunum og bregðast við ef þörf reynist við gerð fjármálaáætlunar. Eitt af því mikilvæga sem fjármagnað er í þessum fjárlögum er tvöföldun frítekjumarks öryrkja og framlög til að fjölga NPA-samningum sem lengi hefur verið kallað eftir. Lögreglan, Landhelgisgæslan, fangelsismálin, ríkissaksóknari og héraðssaksóknari fengu sömuleiðis miklar og tímabærar auknar fjárheimildir.

Sóknaráætlanir eru styrktar sem og atvinnuráðgjafar landshlutanna sem er afar mikilvægt.

Mig langar líka að draga fram stuðning við hin ýmsu söfn og önnur menningarmál sem skiptir miklu máli fyrir slíka starfsemi. Menningarhúsið Sigurhæðir, Flugsafnið, Pálshús í Ólafsfirði, Þjóðlagasetrið á Siglufirði, Heimskautsgerðið á Raufarhöfn, Hollvinafélag Kvíabekkjarkirkju, MAK, Hraun í Öxnadal svo eitthvað sé nefnt. 

Samtök náttúrustofa fá áfram viðbótarframlag og að auki er starfsmaður tryggður á Bakkafirði sem kemur til með að heyra undir Náttúrustofu Norðurlands. Hulda náttúrusetur í Mývatnssveit fær framlag til að byggja upp starfsemina.Áframhaldandi stuðningur er við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og við Háskólann á Akureyri til að styðja við hlutverk hans sem miðstöðvar Íslands í málefnum norðurslóða. 

Starf Persónuverndar á Húsavík er fjármagnað sem og starfstöð sýslumanns á Þórshöfn. Allt er þetta mikilvægt til að tryggja fjölbreytni í lífi og starfi í hinum dreifðu byggðum.

Kórónuveiran og stríð

Það sem stendur ef til vill upp úr hjá mörgum okkar á þessu ári er að hafa með mikilli gleði getað kvatt kórónuveiruna og þær takmarkanir sem henni fylgdu. Það var að sama skapi ánægjulegt að sjá hversu mikill samhugur ríkti meðal ríkisstjórnarinnar um aðgerðir henni tengdar og hversu góð samvinna var við heilbrigðisyfirvöld og landsmenn alla í gegnum þessa erfiðu og fordæmalausu tíma.

Ekki voru þó allar stórfréttir ársins ánægjulegar og fréttir af ólöglegri innrás Rússa í Úkraínu þar sem enn stendur yfir styrjöld sem kostað hefur mörg mannslíf, hungur og vanlíðan, höfðu djúpstæð áhrif á mig eins og aðra. Ég óska þess innilega nú í aðdraganda hátíðar ljóss og friðar að finna megi flöt á friðarumleitunum og að íbúar Úkraínu sem margir hverjir verða fjarri sínum nánustu nú um hátíðarnar haldi í von um frið og að sú von rætist.

Kæru lesendur mér þykir við hæfi að ljúka þessum pistli mínum um árið sem er að líða og því sem við mun taka með þessu fallega kvæði eftir Guðrúnu Jóhannesdóttur:

Hamingjan gefi þér gleðileg jól,

Gleðji og vermi þig miðsvetrarsól.

Brosi þér himininn heiður og blár,

Og hlýlegt verði hið komandi ár.

 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar

 


Athugasemdir

Nýjast