Árangurinn með nýtt sorphirðukerfi framar björtustu vonum

Þegar nýtt sorphirðukerfi var tekið upp á Akureyri,  var um 7.000 flokkunartunnum komið fyrir við hv…
Þegar nýtt sorphirðukerfi var tekið upp á Akureyri, var um 7.000 flokkunartunnum komið fyrir við hvert heimili í bænum.

„Þetta gengur ljómandi vel og við erum ánægð með árangurinn sem er umtalsverður,“ segir Helgi Pálsson rekstrarstjóri Gámaþjónustu Norðurlands, en tæpt ár er liðið frá því tekið var upp nýtt sorphirðukerfi á Akureyri m.a. með því að koma fyrir um 7.000 flokkunartunnum við hvert heimili í bænum.

Frá því nýtt kerfi var tekið upp fer um helmingi minna heimilissorp til urðunar miðað við það sem áður var, en að jafnaði voru um 200 tonn af heimilissorpi urðuð á sorphaugunum á Glerárdal í hverjum mánuði.  Nú eru um 100 tonn af úrgangi flutt á nýjan urðunarstað á Stekkjarbakka skammt frá Blönduósi.  Farið er með tæplega 30% af heimilissorpi til endurvinnslu á grenndarstöðvar og um 27% af heimilisúrgangi er lífrænn úrgangur sem fer til vinnslu í Moltu.

„Við erum ánægð með þennan árangur og hann hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Það fer mun minna af sorpi til urðunar en áður og ég veit að sveitarfélög víða um land horfa til okkar og þess góða árangurs sem hér er í flokkun sorps,“ segir Helgi.

Alls eru 13 grenndarstöðvar í bænum þar sem fólk getur losað sig við endurvinnanlegt sorp af ýmsu tagi og segir Helgi að þær séu mismikið notaðar, sumar mjög mikið aðrar minna og ef til vill verði einhverjar tilfærslur gerðar í því ljósi, en ákvarðanir liggi þó ekki fyrir þar um. „Íbúar á Akureyri eiga hrós skilið hversu vel þeir hafa tekið þessu nýja kerfi og eins þeir stjórnmálamenn sem stóðu fyrir því að nýtt kerfi var innleitt í þessum málaflokki,“ segir Helgi.

 

Nýjast