Annað tap Þórs/KA í röð

Þór/KA tapaði sínum öðrum leik í röð í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu er liðið lá gegn Stjörnunni á Þórsvelli, 1:2. Stjarnan náði forystunni í tvígang með mörkum frá Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Soffíu Arnþrúði Gunnarsdóttur, en Manya Makoski jafnaði í millitíðinni fyrir Þór/KA. Stjarnan er komið í annað sæti deildarinnar með 12 stig en Þór/KA er að dragast aftur úr með sex stig í fimmta sæti. 

 

Leikurinn á Þórsvelli fór fjörlega af stað. Fyrsta færi leiksins kom strax á fjórðu mínútu. Inga Birna Friðjónsdóttir var þá komin ein í gegn eftir góðan sprett upp vinstri kantinn en Helena Jónsdóttir varði vel í marki Þórs/KA. Sex mínútum síðar voru heimamenn nálægt því að ná forystunni. Sandra María Jessen átti sendingu fyrir markið en Mateja Zver rétt missti af boltanum. 

Fyrsta mark leiksins kom á 24. mínútu. Helena Jónsdóttir markvörður Þórs/KA var dæmd brotleg á vítaeigslínunni eftir baráttu við Aslhey Bares. Harður dómur og aukaspyrna dæmd. Eftir fyrirgjöf inn í teig barst boltinn til Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur sem potaði boltanum inn eftir darraðadans í teignum. Staðan 0:1.

Stjörnustúlkur létu kné fylgja kviði og sköpuðu sér hættulega færi sem tókst ekki að nýta.Heimamenn jöfnuðu metin á 39. mínútu og það var hin bandaríska Manya Makoski sem það gerði. Eftir sendingu inn í teiginn náði Manya að pota í boltann áður en Ashley Thompson markvörður Stjörnunnar náði komast inn í sendinguna. Vel afgreitt hjá Manyu. Staðan 1:1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Arna Sif Ásgrímsdóttir fékk sannkallað dauðafæri til þess að koma Þór/KA yfir eftir tuttugu mínútna leik í seinni hálfleik. Kristín Júlía Ásgeirsdóttir, sem hafði komið inn á sem varamaður fyrir Gígju Valgerði Harðardóttur, átti laglegan sprett og var kominn upp að endamörkum er hún sendi stutta sendingu á Örnu Sif, sem fékk opið færi en skotið slakt beint á markvörð Stjörnunnar. 

Skömmu síðar átti Mateja Zver skot í stöngina en heppnin ekki með heimamönnum. Það voru hins vegar Stjörnustúlkur sem náðu forystunni á ný þegar tíu mínútur voru til leiksloka en markið skoraði Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir, að virtis beint úr hornspyrnu. Staðan 1:2.Þór/KA stúlkur reyndu hvað þær gátu að jafna leikinn. Stjarnan missti mann af velli er Soffía Arnþrúður var rekinn að velli fyrir sitt annað gula spjald, en það breytti litlu og Stjörnustúlkur fögnuðu sigri. 

Lokatölur, 2:1 sigur Stjörnunnar.  

Nýjast