Andarnefjur (Hyperoodon ampullatus á latínu og "Northern bootlenose whale" á ensku) teljast til tannhvala. Ekki fer þó mikið fyrir tönnum í andarnefjum þar sem tarfurinn skartar aðeins einni tönn á meðan kýrin er tannlaus. Andarnefjur eru með stærstu tannhvölum og geta tarfarnir náð hátt í 10 metra lengd en kýrnar eru minni eða að hámarki tæpir 9 metrar. Andanefjan er svipuð að stærð og hrefnan, sem er með minnstu skíðishvölum, og eru þessar tvær tegundir reyndar talsvert líkar við fyrstu sýn ef einungis sést í bakið. Megin einkenni andarnefjunnar og það sem gerir hana frábrugðnum öðrum hvölum umhverfis Ísland er höfuðlagið. Ennið er hátt og minnir nokkuð á höfuðlag búrhvala en kjálkar andarnefjunnar ná hins vegar fram fyrir ennið og mynda framstætt nef á trýni hennar.
Andarnefjan hefur aldrei verið veidd í neinu magni af Íslendingum, nema þá sjaldan þær sáust nálægt landi. Eggert Ólafsson getur til dæmis um það í ferðabók sinni að Eyfirðingar hafi veitt andarnefju sér til matar á 17. og 18. öld. Norðmenn stunduðu hinsvegar talsverðar andarnefjuveiðar í hafinu fyrir norðan og norðaustan Ísland. Frá miðri 19. öld og fram til 1920 var andarnefjan fyrst og fremst veidd vegna lýsisins sem finnst í höfði þeirra. Var lýsið mest notað sem smurningsolía og til áburðargerðar. Síðar meir var hún einnig veidd vegna kjötsins sem fór þó yfirleitt í dýrafóður á meðan kjötið af hrefnum, sem voru veiddar af sömu bátum fóru í mannamat. Andarnefjur eru forvitnar að eðlisfari og eru þekktar fyrir að nálgast báta til að skoða þá. Þær reyna einnig að hjálpa særðum félögum og hefur það ásamt forvitni þeirra gert það að verkum að auðvelt hefur verið að veiða þær.
Andarnefjur verða kynþroska 8-12 ára gamlar. Flest bendir til þess að kýrnar beri annað hvert ár eftir 12 mánaða meðgöngutíma. Kálfar fæðast um 3-3,5 m langir í apríl-júlí og eru sennilega á spena í heilt ár, en geta fylgt móður sinnu eftir mun lengur. Vitað er um andarnefjutarfa sem hafa náð 37 ára aldri en elsta kýrin sem aldurgreind hefur verið var 27 ára gömul.
Andarnefja er úthafshvalur og verður sjaldan vart nálægt landi, nema þá helst þegar dauð dýr reka, eða ef dýr eiga í einhverjum vandræðum. Andarnefjan er ásamt búrhvalnum sú hvalategund sem kafar dýpst og getur kafað á meira en kílómetra dýpi í fæðuleit og geta þessar djúpkafanir varað í allt að tvær klukkustundir. Helstu fæðusvæðin hér við land eru fyrir utan landgrunnið þar sem dýpi er 1000 metrar eða meira. Aðal fæða andanefja er smokkfiskur, en auk þess má finna í fæðu þeirra nokkrar tegundir fiska, sæbjúga og sæstjarna.
Á þessu ári hefur orðið vart við mikið af reknum andarnefjum bæði hér við Ísland og einnig annars staðar við norðanvert Atlantshaf. Það sem af er þessu ári hafa fundist 10 dýr rekin við Ísland og þar af 7 á svæðinu frá Ströndum að Bakkaflóa. Til samanburðar má geta þess að á árunum 1981-2002 er vitað um 19 reknar andarnefjur við Ísland.
Ásamt þessari fjölgun hvalreka hefur að undanförnu sést óvenju mikið af andarnefju á grunnslóð. Síðustu vikur hafa tvö dýr haldið sig nánast við fjöruborðið hér á Pollinum og fjögur dýr hafa einnig haldið sig á Skjálfanda og eru það einu hvalirnir sem sést hafa þar að undanförnu. Í september á síðasta ári villtust einnig tvær andarnefjur inn í Vestmannaeyjahöfn en þær voru reknar út úr höfninni af heimamönnum. Hugmyndir hafa komið upp um að gera slíkt hið sama við andarnefjurnar á Akureyrarpolli en hæpið verður að teljast að það sé hægt enda Eyjafjörðurinn talsvert stærri en Vestmannaeyjahöfn. Þess má einnig geta að í janúar 2006 komst andarnefja í fréttirnar þegar hún synti upp Thames á í Bretlandi. Sú drapst þó að lokum þrátt fyrir miklar björgunaraðgerðir.
Erfitt er að segja til um ástæður þessarar aukningar á reknum andarnefjum eða hvort viðvera þessara andarnefja hér á Akureyrarpolli og á Skjálfanda tengist þeim eitthvað. Hugmyndir hafa komið fram um að aukin tíðni rekinna andarnefja megi rekja til sjúkdóma í stofninum eða að hávaði af náttúrulegum orsökum eða mannavöldum hafi leitt til heyrnaskaða hjá dýrunum eða jafnvel köfunarveiki. Eitt af hlutverkum Hafrannsóknastofnunarinnar er að skrá og rannsaka hvalreka við Ísland eins ítarlega og hægt er. Í tilfelli andarnefjanna hafa verið tekin vessasýni til að athuga með veirusýkingar og heyrnabein skoðuð til að kanna hvort hugsanlega dýrin hafi orðið fyrir heyrnaskaða. Einnig er athugað hvort áberandi sár eru á dýrinu sem gætu bent til skaða af völdum veiðarfæra eða jafnvel háhyrninga. Skemmst er að minnast þess er hópur háhyrninga réðist á hrefnu og grandaði henni á Skjálfanda í júlí sl., en eins og áður segir þá eru andarnefjur og hrefnur af svipaðri stærð.
Ýmsar kenningar hafa einnig skotið upp kollinum varðandi ástæður þess að andarnefjurnar tvær (kýr og kálfur) eru hér á Pollinum. Meðal þeirra kenninga sem hafa komið upp eru:
Ekki ætlum við að reyna að gera upp á milli ofangreindra kenninga í þessu greinarkorni okkar. Miðað við hversu tápmikil dýrin virðast gætu þau verið í einhverju æti á Pollinum. Ekki er það þó smokkfiskur þar sem lítið hefur orðið vart við hann í Eyjafirði á síðustu áratugum. Hugsanlega eru þær að gæða sér á síld en heimildir eru fyrir því að það hafi áður gerst. Smásíld er nánast ætíð til staðar í Eyjafirðinum en hún er væntanlega of smá fyrir andanefjuna. Við höfum hinsvegar heyrt af því að stórsíld hafi fengist á stöng á Pollinum og væri það álitlegri fæða.
Að lokum viljum við taka fram að vísindin eru ekki endilega sannleikurinn, heldur miklu fremur leitin að honum og líkt og í góðum reifara getur sú leit oft verið flókin. Oft kemst ekki skriður á málið fyrr en einhver gefur mikilvæga vísbendingu. Við viljum því hér að lokum hvetja fólk til að hafa samband við okkur ef menn sjá eitthvað óvenjulegt í gangi varðandi lífríki sjávar í Eyjafirði eða annarsstaðar við Norðurland.
Hreiðar Þór er lektor í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri (hreidar@unak.is). Hlynur er útibússtjóri Hafrannsóknastofnunarinnar á Akureyri (hlynur@unak.is).