Stór helgi er framundan hjá sundfólki landsins því um helgina heldur sundfélagið Óðinn sína stærstu sundhátíð á árinu, Aldursflokkameistaramót Íslands ( AMÍ ). Mótið hófst í morgun í Sundlaug Akureyrar og stendur yfir í fjóra daga eða fram á sunnudag.
Tæplega 300 keppendur frá 15 félögum eru skráðir til leiks. Á mótinu er keppt í aldursflokkum 18 ára og yngri. Flestir keppendur eru á aldrinum 11- 18 ára og þarf að ná tilteknum lágmörkum til að öðlast þátttökurétt á mótinu.
Mótið er stigakeppni félaga auk þess sem úrslitahluti er einstaklingskeppni og skal sigurvegari í hverri grein hljóta sæmdartitilinn, Aldursflokkameistari Íslands, í þeirri grein.