Alvarlegum ákærumálum fjölgaði á milli ára

Á síðasta ári komu heldur fleiri mál inn á borð Héraðsdóms Norðurlands eystra en árið 2008. Sú breyting átti sér stað að sveitarfélögin Fjallabyggð og Langanesbyggð heyra nú til umdæmis Héraðsdóms Norðurlands eystra samkvæmt nýrri reglugerð frá 26. maí 2009.  

Samkvæmt upplýsingum Ólafs Ólafssonar dómstjóra voru hefðbundin einkamál alls 724 á síðasta ári.  Svokölluð þjóðlendumál voru í fyrsta skipti fyrirferðarmikil en þau komu af fullum þunga til kasta dómstólsins í fyrra.

Sakamál voru samtals 425, en þar af voru 329 mál frá lögreglustjóranum á Akureyri og 66 mál frá lögreglustjóranum á Húsavík. Ólafur segir að helsta breytingin á milli ára sé sú að alvarlegum ákærumálum frá ríkissaksóknara hafi fjölgað töluvert. Þau voru 30 á síðasta ári en 9 árið áður, en þar er m.a. um að ræða alvarlegar líkamsárásir og kynferðisbrotamál.  Þá voru rannsóknarúrskurðir vegna sakamála alls 23.

Gjaldþrotamálum fækkaði hins vegar á milli ára, að sögn Ólafs. Alls bárust 88 gjaldþrotabeiðnir í fyrra og þar af var úrskurðað í 49 málum. Í öðrum tilfellum voru mál afturkölluð eða um þau samið. Í 41 máli sem úrskurðað var í, var um að ræða hlutafélög eða einkahlutafélög en í 8 tilvikum var um að ræða mál einstaklinga. Þá segir Ólafur að ný mál sem tengjast svokallaðri greiðsluaðlögum hafi verið 26 talsins. Loks voru allnokkur mál afgreidd á síðasta ári sem vörðuðu annarskonar ágreining.  Má þar t.d nefna mál um meðferð dánarbúa, lögræðismál einstaklinga og mál er varða þinglýsingar á fasteignum.

Nýjast