ALÞJÓÐLEGI OG ÍSLENSKI SAFNADAGURINN Á AKUREYRI
Í dag er alþjóðlegi og íslenski safnadagurinn. Í tilefni af því býður Minjasafnið á Akureyri upp á byggingasögugöngu um menningarlandslag á hluta Suðurbrekkunnar á Akureyri í dag 18. maí. Í göngunni verður rýnt í skipulag og byggingar í nágrenni Menntaskólans á Akureyri. Gengið verður frá gamla Menntaskólahúsinu kl 17. 30. Leiðsögumaður er Hanna Rósa Sveinsdóttir frá Minjasafninu á Akureyri. Gangan tekur rúman klukkutíma og ekkert þátttökugjald er í gönguna.
Listasafnið á Akureyri býður af sama tilefni þann 18. maí uppá leiðsögn á ensku kl 12.15-12.45 um sýninguna Fólk/People en þar sýna sjö ólíkir listamenn verk sín. Fimmtudaginn 19. maí kl 12.15- 12.45 verður boðið uppá leiðsögn á íslensku þar sem Þorbjörg Ásgeirsdóttir safnfulltrúi og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi fræða gesti um sýninguna sem lýkur 29. maí næstkomandi. Enginn aðgangseyrir er inná safnið.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni Fólk/People: Barbara Probst, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Hrefna Harðardóttir, Hörður Geirsson, Ine Lamers og Wolfgang Tillmans. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.
Íslenski safnadagurinn er hluti Alþjóðlega safnadagsins sem haldinn er árlega 18. maí af International Council of Museums (ICOM). Þátttakendur eru um 35.000 söfn í 140 löndum og er þema ársins söfn og menningarlandslag. /epe.