Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn 2011 er á morgun
Á morgun, miðvikudaginn 5. október, er alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim. Um leið lýkur formlega verkefninu Göngum í skólann hér á landi. Er þetta í fimmta skipti sem Ísland tekur þátt í verkefninu. Það hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi.
Í ár tóku 59 skólar um allt land þátt í verkefninu. Megin markmið Göngum í skólann eru að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar. Að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir vistvænan ferðamáta og umhverfismálum og það hversu gönguvænt" umhverfið er. Þeir sem að því standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Landlæknisembættið, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Umferðastofa og Landssamtökin Heimili og skóli.
Nánari upplýsingar um verkefnið og hvernig það hefur farið fram í þátttökuskólunum er að finna á heimasíðu þess http://www.gongumiskolann.is/.