Unnið er að undirbúningi alþjóðlegar ráðstefnu um jarðskjálfta á Norðurlandi og fer hún fram á Húsavík dagana 31. maí til 3. júní n.k.
Markmið ráðstefnunnar er að taka stöðuna á rannsóknum á jarðskjálftum á Norðurlandi, orsökum þeirra, eðli og áhrifum, hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna og aðgerðum til að draga úr tjóni á fólki og samfélagslegum innviðum vegna stórra skjálfta sem gætu orðið á svæðinu.
Lögð er áhersla á að fá til þátttöku í ráðstefnunni þá íslensku og erlendu vísindamenn og verkfræðinga sem mest hafa rannsakað svæðið ásamt því að fá aðila frá sveitastjórnum, almannavarnanefndum, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sem og fólk úr samfélags- og skipulagsfræðum, verkfræðinga og tæknifræðinga sem starfa á svæðinu.
Mótuð dagskrá liggur þegar fyrir og mörg erindi verða flutt. M.a. um eldsumbrotin í Bárðarbungu og Holuhrauni 2014-2015 og rannsóknir á jarðskjálftum, virkni, sprungum og jarðváreftirliti.
Sérfræðingar í rannsóknum og jarðváreftirliti koma til opinnar samræðu við fólk í stjórnsýslu og almenning. Þátttakendur fara jarðvísindalegar skoðanaferðir um Húsavíkursvæðið og Þeistareykjasvæðið.
Starfsfólk Þekkingarnets Þingeyinga mun sjá um skipulag og framkvæmd ráðstefnunnar og veitir ráðgjöf varðandi ferðatilhögun, gistingu o.fl.
Aðstandendur ráðstefnunnar og styrktaraðilar eru: Háskólinn á Akureyri, Háskólasjóður KEA, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofa Íslands, King Abdullah University of Science and Technology (KAUST), Rannsóknar-miðstöð í jarðskjálftaverkfræði við Háskóla Íslands, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Viðlagatrygging Íslands, Íslenskar Orkurannsóknir (ÍSOR), Þekkingarnet Þingeyinga, Orkustofnun, Innanríkisráðuneytið, Umhverfis- og Auðlindaráðuneytið og Forsætisráðuneytið. JS