Alþjóðleg ráðstefna um framtíð Atlantshafslaxins hefst í dag

Ráðstefnan hefst í dag
Ráðstefnan hefst í dag

Six Rivers Conservation Project, stofnað af Sir Jim Ratcliffe, stofnanda og stjórnarformanni INEOS, heldur núna í september í annað sinn alþjóðlegt málþing um framtíð Atlantshafslaxins. Þetta kemur fram í tilkynningu samtakanna.

Á ráðstefnunni, sem fram fer í Reykjavík þriðjudaginn 21. og miðvikudaginn 22. september, koma saman leiðandi sérfræðingar frá Íslandi, Noregi, Finnlandi, Bretlandi, Írlandi og Kanada til að fjalla um alvarlega hnignun stofns Norður-Atlantshafslaxins, en stærð hans nemur nú bara fjórðungi af því sem var á áttunda áratug síðustu aldar. Til umræðu verða kenningar sérfræðinga um ástæður hnignunarinnar og verndaraðgerðir sem bjargað geti laxinum af brún útrýmingar.

Meðal þátttakenda eru Mark Bilsby, framkvæmdastjóri Atlantic Salmon Trust, prófessor Kurt Samways frá háskólanum í New Brunswick, prófessor Ian Fleming frá Memorial háskólanum á Nýfundnalandi, prófessor Guy Woodward frá Imperial College London, dr. Guðni Guðbergsson deildarstjóri sjávar- og ferskvatnsrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun, dr. Colin Bull frá The Missing Salmon Alliance, dr. Nikolai Friberg frá Niva – norsku ferskvatnsrannsóknamiðstöðinni, prófessor Jaakko Erkinaro frá Luke — rannsóknarstofnun Finnlands í náttúrufræðum, prófessor Phil McGinnity frá Environmental Research Institute við University College Cork, dr. Rasmus Lauridsen yfirmaður fiskveiðirannsókna hjá Game & Wildlife Conservation Trust, dr. James Rosindell sérfræðingur í magngreiningarlíffræði við Imperial College, auk dr. Michelle Jackson og dr. Katrina Davis frá Oxfordháskóla.

„Sir Jim Ratcliffe, stofnandi og stjórnarformaður INEOS, hefur um árabil einn af öflugustu bakhjörlum laxverndar á Íslandi. Hann stóð að stofnun Six Rivers Conservation Project til að styðja við tegundina með markvissum hætti. Í starfi Six Rivers Project er áhersla lögð á vernd bæði lands og vistkerfis nokkurra áa Norðausturlands, sem styður viðgang einstakra stofna laxins í ánum. Verkefnið er metnaðarfullt að umfangi og felur í sér umtalsverða fjárfestingu jafnt í beinum verndaraðgerðum á svæðinu og í langtímarannsóknum til að standa vörð um eitt af síðustu svæðunum þar sem Norður-Atlantshafslaxinn dafnar,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að vonir vísindamanna sem vinna að verndarverkefni Six Rivers Project standi til þess að uppgötva hvernig styðja má við og efla stofn Atlantshafslaxins. Ár verkefnisins á Norðausturlandi séu óspilltar og vatnasvæði þannig frá náttúrunnar hendi að auðveldi rannsóknir á laxinum. Þekking sem á uppruna sinn í þessum vistkerfum á Íslandi styðji við aðgerðir til að snúa við heildarhnignun laxastofnsins. Uppgötvunum á Íslandi verði deilt og þær notaðar um heim allan.

Nálgun verndarstarfs Six Rivers Project byggir á fjórum þáttum, árvissum grefti hrogna úr löxum úr ánum sjálfum, byggingu laxastiga til að opna laxinum ný uppvaxtarsvæði, endurlífgun gróðurfars með uppgræðslu og skógrækt til að auðga fæðuúrval fisksins í ánum, og merkingu seiða og gönguseiða til að safna gögnum um afkomu og ferðir þeirra. Allar miða þessar leiðir að því að styðja við vöxt stofnanna í ánum og auka lífslíkur laxins. Vinnan er unnin í nánu samstarfi við bændur og nærsamfélagið.

Í tilkynningunni segir að þetta mikilvæga verndar og rannsóknarstarf sé fjármagnað beint af Sir Jim Ratcliffe auk þess að njóta stuðnings af einstæðri stangveiðiupplifun Six Rivers Project þar sem reglan er að öllum veiddum fiski er sleppt aftur.

„Með því að leiða aftur saman þennan hóp leiðandi sérfræðinga í heiminum viljum við byggja á vel heppnuðum viðburði síðasta árs, deila kenningum okkar, niðurstöðum og reynslu, til að finna nýjar leiðir til að snúa við hnignun laxastofnsins. Verndarstarf okkar með Six Rivers Project eflir stuðning við laxinn á norðausturhluta Íslands, en mikið meira þarf til. Vonandi leggjast líka opinberir aðilar á árar með okkur í þessu,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers Conservation Project.


Athugasemdir

Nýjast