Alþjóðadagur læsis á fimmtudag

Alþjóðadagur um læsi er á fimmtudag, 8. september og hefur skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri haft frumkvæði um að vekja athygli á þessum degi og mikilvægi læsis.  Amtsbókasafnið, Akureyrarstofa og fleiri hafa svo komið að þessu með vinnuframlagi.  Meðal þess sem, gert hefur verið er upplýsingapési á tölvutæku formi þar sem m.a. er bent á leiðir fyrir fjölskyldur og heimili að því hvernig hægt er að virkja læsi á ýmsa skemmtilega vegu.  

Jafnframt hefst þá skemmtilegt verkefni sem ber yfirskriftina; Bók í mannhafið. Hugmyndin snýst um að bjóða  bjóða fólki á öllum aldri að taka sér ókeypis bók úr 30 bókakössum sem verða staðsettir á fjölmennum stöðum á Akureyri s.s. á kaffihúsum, verslunum, flugvelli, bönkum, heilsugæslu, umferðamiðstöð, o.fl. Vinnustaðir geta einnig óskað eftir bókakössum og/eða sjálfir komið af stað Bók í mannhafið innan eigin vinnustaðar. Í kössunum eru ókeypis bækur sem fólk á öllum aldri getur tekið með sér heim. Hver bók er merkt með límmiða þar sem stendur Bók í mannhafið. Að lestri loknum er bókinni komið fyrir í sambærilegum bókakassa eða á stað sem er aðgengilegur öðrum. Bókakassarnir standa út september og lengur ef áhugi er fyrir hendi.

Almenningur getur einnig sett sínar eigin bækur í mannhafið með því að setja límmiða framan á bókina þar sem stendur Bók í mannhafið skilja hana eftir í bókakassa eða á fjölförnum stað. Gefendur bóka eru Amtsbókasafnið, undirbúningsnefnd og vinnufélagar þeirra. Verkefnið er að frumkvæði Miðstöðvar skólaþróunar og Bókasafns Háskólans á Akureyri,  Amtsbókasafnsins og Akureyrarstofu.

Nýjast