24. júní, 2009 - 15:27
Fréttir
Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri óskaði eftir umræðu um stöðu framleiðslufyrirtækja á Akureyri og jöfnun
flutningskostnaðar á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær. Hann lagði jafnframt fram tillögu að bókun, sem samþykkt var
samhljóða, þar sem skorað er á Alþingi og ríkisstjórn að beita sér fyrir því sem fyrst að jafna stöðu
fyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu hvað varðar flutningskostnað.
Ennfremur segir í bókuninni: "Löng hefð er fyrir rekstri framleiðslufyrirtækja á Akureyri og hefur rekstrarumhverfi þeirra að mörgu leyti
verið gott en vegna mikils og vaxandi flutningskostnaðar verður samkeppnisstaða þessara fyrirtækja sífellt erfiðari.
Bæjarstjórn ítrekar því fyrri ályktanir bæjaryfirvalda um mikilvægi þess að þegar í stað verði settar reglur og
ráðist í aðgerðir til að jafna þennan aðstöðumun."