Allt reynt til að koma fiskvinnslu í gang á ný

Vinnslu í fiskvinnslu Brims á Grenivík mun ljúka í þessum mánuði.  Um 15 manns hafa unnið þar á liðnum árum.  Grýtubakkahreppur leitar allra leiða til að framhald verði á fiskvinnslu á staðnum og er með nokkur járn í eldinum.  

Ágúst Torfi Hauksson hjá Brim á Akureyri segir að nokkrir af starfsmönnum fyrirtækisins á Grenivík hafi sýnt áhuga á að vinna á Akureyri. Þannig hafa fjórir starfsmenn  sem unnu á Grenivík þegar hafið störf í landsvinnslu Brims á Akureyri.

„Við erum að vinna hörðum höndum að þessum atvinnumálum í hreppnum, við áttum reyndar von á að vinnslan myndi loka í byrjun nýs kvótaárs í haust, en nú lítur út fyrir að starfseminni verði hætt um næstu mánaðamót," segir Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi.  Starfsfólki var sagt upp störfum fyrr í vetur og flestir á uppsagnafresti í 3 til 6 mánuði.  „Það gefur augaleið að þetta er mikil blóðtaka fyrir sveitarfélagið og við gerum allt sem við getum til að koma einhverju nýju á koppin.  Við erum að skoða nokkra möguleika og þá á sviði áframhaldandi fiskivinnslu, en það skýrist betur innan skammt, líklega í byrjun júní," segir Guðný.

Nýjast