Samgöngur eru að komast í eðlilegt horf eftir þá röskun sem varð vegna veðurs í gær. Til að mynda er allt innanlandsflug Flugfélags Íslands komið í gang. Fyrsta vél félagsins lenti á Akureyri kl 08.15 og ætti flug að vera komið á rétt ról um hádegi. Á vegum landins er enn hálka og misjöfn færð, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Norðanlands er snjóþekja eða hálka á flestum leiðum. Þæfingsfærð er þó í Norðurárdal í Skagafirði og ófært er um Hófaskarð þar sem beðið er með mokstur.
Á Austurlandi er hálka á flestum leiðum og sumstaðar skafrenningur. Á Suðausturlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir en snjóþekja á Mýrdalssandi og útvegum. Hálka er á Hellisheiði, Sandskeiði og í Þrengslum. Þæfingsfærð er víða í uppsveitum en unnið er að mokstri þar og víðar á Suðurlandinu. Á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi eru hálkublettir og éljagangur. Á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi er unnið að hreinsun á öllum aðalleiðum.
Um Snæfellsnes er víðast hvar hálka en á Mýrunum, Bröttubrekku og í Borgarfirði er snjóþekja. Hálka er svo á Holtavörðuheiði og víðar á Vesturlandi. Á Vestfjörðum er snjóþekja á Gemlufallsheiði, í Ísafjarðardjúpi og um Þröskulda. Annars er víða hálka. Þó er þungfært um Barðaströnd og svo ófært um Kleifaheiði, Klettsháls og þaðan í Þorskafjörð.