Allt að 8 ára bið eftir nýjum legudeildum á SAk

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Að óbreyttu gætu nýjar legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri verið teknar í notkun eftir átta ár. Bjarni Jónasson, forstjóri sjúkrahússins, segir að þetta sé of langur tími og brýnt sé að hraða verkefninu. Frá þessu var greint á vef Rúv.

Lengi hefur verið talin þörf á að bæta aðstöðu sjúkrahússins. Bjarni Jónasson segir löngu tímabært að endurnýja aðstöðu geðdeildar og annarra legudeilda. „Við erum oft og tíðum að lenda í því að þessar deildir eru yfirfullar og þá þurfum við að leita leiða til þess að koma fólki annars staðar fyrir á sjúkrahúsinu,“ segir Bjarni. Í núgildandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir viðbyggingu við sjúkrahúsið, en ekki fyrr en 2021 til 2022. „Við þurfum að ná þessu framar í ferlið þannig við getum farið að byrja og séð fyrir endann á þessu á næstu fimm til sjö árum,“ er haft eftir Bjarna á Rúv.

Legudeildirnar uppfylla ekki skilyrði

Eins og Vikudagur hefur áður fjallað um eru legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri orðnar 60 ára gamlar og uppfylla ekki þau skilyrði sem gerð eru til legudeildar á sjúkrahúsum í dag með tilliti til sjúklinga, aðstandenda og starfsmanna. Plássið er búið að sprengja utan af sér og dæmi eru um að færa þurfi sjúklinga á milli deilda til að koma þeim fyirir.

Nýjast