Alls fæddist 491 barn í fyrra

Árið 2022 byrjar mjög vel á Fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri en þó nokkuð mörg börn hafa fæðst …
Árið 2022 byrjar mjög vel á Fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri en þó nokkuð mörg börn hafa fæðst það sem af er árinu. Hér er Ingibjörg Hanna Jónsdóttir forstöðuljósmóðir með eitt þeirra. Mynd/ aðsend

Mun fleiri börn fæddust á Fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri á nýliðinu ári, 2021 miðað við árið á undan. Alls fæddust í fyrra 491 barn í 488 fæðingum. Aðeins einu sinni hafa fæðst fleiri börn á Akureyri, það var árið 2010 þegar fæðingar voru 515 talsins. „Þetta er næst stærsta árið okkar á SAk frá upphafi,“ segir Ingibjörg Hanna Jónsdóttir forstöðuljósmóðir á Fæðingardeild SAk.

Árið 2021 fæddust á deildinni 244 stúlkur og drengir voru 247 talsins. Þrennir tvíburar fæddust í fyrra. Færri börn fæddust árið á undan, 2020, en það ár fæddust 397 börn í 392 fæðingum, en það ár voru 5 tvíburafæðingar.

Mikið að gera en sluppu vel frá Kóvid

„Það var mikið að gera hjá okkur hér á deildinni í fyrra, en við höfum sem betur fer verið heppin hvað kórónuveirufaraldurinn varðar. Það má þakka það okkar skjólstæðingum, sem lagt hafa sig fram um að fara varlega síðustu vikur fyrir fæðingu og gætt sín afar vel. Það skiptir mjög miklu máli fyrir alla. Það er þannig að þegar við vinnum í Kóvid búnaði verða samskipti mun ópersónulegri fyrir utan óþægindin sem af því skapast, bæði fyrir okkur og skjólstæðingana,“ segir Ingibjörg Hanna.

Hún segir árið 2022 byrja mjög vel og það sem af er ári eru þó nokkuð mörg börn fædd. „Við gerum ekki ráð fyrir að fæðist jafnmörg börn hjá okkur í ár og í fyrra, það er óalgengt að svona margar fæðingar sú tvö ár í röð, en auðvitað væri það mjög gaman.“

/MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast