Alls eru 75 kettir skráðir á Akureyri og 566 hundar
Samkvæmt nýrri reglugerð um hundahald er nú einungis leyfilegt að hafa þrjá hunda á hverju heimili en upp hefur komið dæmi þess að óskað var eftir leyfi fyrir fjórum hundum. Slík leyfi eru ekki gefin og verða hundaeigendur að sætta við að halda að hámarki þrjá hunda. Það sama verður uppi á teningnum varðandi ketti frá og með 1. desember nk. en eftir þann dag verður einungis heimilt að nýskrá þrjá ketti á hvert heimili. Eigi menn fleiri ketti en þrjá og hafa skráð þá fyrir tilskilinn tíma fá þeir að halda þeim öllum.
Meðal nýjunga í reglugerð um hundahald á Akureyri var bann við því að eigendur tækju hunda sína með á fjölmennar samkomur í bænum, s.s. á þjóðhátíðardaginn, verslunrmannahelgi og Akureyrarvöku. Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ er erfitt að framfylgja banninu, reglurnar séu hins vegar skýrar og fyrst og fremst settar með hag hundaeigenda og hátíðargesta í huga, margir óttast hunda og taka þarf tillit til þeirra. Þegar út af bregður og eigendur fylgja ekki reglum, heldur taka hunda með á áðurnefndar samkomur treystir sveitarfélagið því að lögreglan fylgi þessum nýju reglum eftir.