Allir tilbúnir að fækka fötum á ný
Það eru allir hressir og klárir í slaginn á ný, segir Bernharð Arnarson formaður Leikfélags Hörgdæla en félagið er að hefja á ný sýningar á verkinu Með fullri reisn á Melum í Hörgárdal. Sýningum var hætt í fyrravor og ákveðið að taka þráðinn upp á ný með haustinu enda voru viðtökur góðar og biðlistar eftir miðum á sýninguna.
Alls eru nú 10 sýningar á döfinni norðan heiða, sú fyrsta í kvöld, fimmtudagskvöldið 20. október og hin síðasta 5. nóvember, en að þeim loknum leggjast hörgdælskir bændur í víking og sýna í Iðnó í Reykjavík aðra helgina í nóvember. Sýnt er bæði um helgar og á virkum dögum en upplýsingar um sýningardaga og tíma má finna á heimasíðu leikfélagsins sem hýstur er á vef Hörgársveitar.