Allir þátttakendur í forvali fá að taka þátt í útboði

Stjórn Vaðlaheiðarganga hf. samþykkti á fundi sínum á Akureyri nýlega að gefa öllum sex aðilunum sem þátt tóku í forvali, kost á að taka þátt í útboði vegna gerðar Vaðlaheiðarganga. Samþykktin byggir á bréfi frá vegamálastjóra og á álitsgerðum sem matsaðilar höfðu lagt fram, að sögn Kristínar H. Sigurbjörnsdóttur formanns stjórnar Vaðlaheiðarganga hf.  

Kristín segir að útboðsgögn verði ekki send út fyrr en framkvæmdaleyfi hafa verið gefin út af hálfu Svalbarðsstrandarhrepps og Þingeyjarsveitar. Hún segir að viðræður við fjármálaráðuneytið um fjármögnum séu á frumstigi og þá hafa verið í gangi samningaviðræður við landeigendur austan og vestan megin Vaðlaheiðar. Vegagerðin hefur sent erindi til sveitarstjórna Svalbarðsstrandarhrepps og Þingeyjarsveitar og óskað eftir framkvæmdaleyfi og á báðum stöðum er verið að fara yfir málin þessa dagana. Jafnframt hefur sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps borist erindi frá landeigendum í Halllandi þar sem þess er farið á leit að framkvæmdaleyfi verði ekki gefið út fyrr en samningar hafa náðst milli framkvæmdaraðila og landeigenda um greiðslur fyrir land og afnot af landi, eða leyfið bundið skilyrðum þar að lútandi.

Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps segir að verið sé að vinna drög að framkvæmdaleyfi og afla gagna og upplýsinga varðandi málið frá málsaðilum svo hægt sé að taka endanlega afstöðu til erindanna tveggja. "Það liggur ekki fyrir hvenær búast má við endanlegri afgreiðslu, en við stefnum að aukafundi í sveitarstjórn þegar fengist hafa svör við spurningum um lögfræðileg álitamál," segir Jón Hrói.

Tryggvi Harðarson sveitarstjóri Þingeyjarsveitar segir að erindi Vegagerðarinnar fari fyrir skipulagsnefnd áður en það verður tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar eftir viku. Unnin hafi verið drög að framkvæmdaleyfi og hann segist ekki sjá að það sé nokkuð til fyrirstöðu varðandi leyfið. "Vonandi verður hægt að fara sprengja sem fyrst, það er alveg komi tími á það," sagði Tryggvi.

Kristín segir að enn sé stefnt að því að hefja framkvæmdir í lok ársins eða byrjun ársins 2012 en það fari allt eftir því hvenær útboðgögn geta farið út, hvernig gengur með samninga við fjármálaráðuneytið, verktaka, landeigendur og fleiri aðila. Í tengslum við gerð Vaðlaheiðarganga þarf að byggja bráðarbirgðabrú yfir þjóðveginn hjá Hallandsnesi vegna efnisflutninga frá gangnagerðinni undir veginn. Kristín segir að bráðabirgðabrúin verði líklega boðin út í haust en útboðið sé háð því sama og framkvæmdir við jarðgöngin og því engar tímasetningar ákveðnar. Rætt hefur verið um að nýta efnið úr göngunum á flugvallarsvæðinu á Akureyri. Kristín segir að viðræður hafi átt sér stað við ISAVIA en að ekkert sé frágengið með það ennþá.

Íslensku fyrirtækin sem þátt tóku í forvalinu eru Ístak og Norðurverk en á bak við Norðurverk eru sex fyrirtæki í Eyjafirði;  Árni Helgason ehf., SS Byggir ehf., Skútaberg ehf, GV Gröfur ehf, Rafeyri ehf. og Norðurbik ehf. Hin fjögur eru samvinnuverkefni erlendra og íslenskra fyrirtækja. 

Nýjast