Allir landsfjórðungar riðnir til heiðurs Landvættunum

Ferðaþjónusta hestamannsins í Saltvík, rétt utan Húsavíkur. Myndir/Aðsendar
Ferðaþjónusta hestamannsins í Saltvík, rétt utan Húsavíkur. Myndir/Aðsendar

Bjarni Páll Vilhjálmsson rekur ásamt fjölskyldu sinni ferðaþjónustufyrirtæki að Saltvík rétt sunnan Húsavíkur sem sérhæfir sig í hestaferðum með hópa,  lengri hestaferðirnar taka um og yfir 30 daga og hafa heldur betur slegið í gegn. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi við  Bjarna Pál fyrir skemmstu en nú hefur Saltvíkurbóndinn kynnt nýja langferð sem nefnd er eftir Landvættunum, íslensku.

Bjarni Páll segir að kjarninn í starfsemi Saltvíkur hestaferða sé einmitt þessar lengri hestaferðir sem hann hefur verið að bjóða upp á. „Svo erum við með dagstúra líka og gistiheimili,“ bætir hann við.

Þessar löngu hestaferðir eru markaðsettar undir nafninu „Dream Tour“ eða drauma ferðin. Í ár er boðið upp á fjóra leggi og hefst ferðin 24. júlí en síðasta leggnum líkur 30. ágúst, þar sem m.a. er riðið um Flateyjardal og Sprengisand. Þetta er fjórða sumarið sem boðið er upp á þessar löngu ævintýraferðir með íslenska hestinum. Og Bjarni segir að vinsældirnar hafi aldrei verið meiri.

Bjarni

 Stóra draumaferðin

Nú hyggst Bjarni Páll bæta enn í og hefur markaðsett draumaferð sem farin er á fjórum árum og einn landsfjórðungur tekinn fyrir á hverju ári.

„Þetta er fjögurra ára verkefni. Við höfum náttúrlega verið að skapa okkur sérstöðu í mjög löngum og krefjandi ferðum,“ segir Bjarni og bætir við að innblásturinn komi frá myndlist vinar síns og skólabróður, Gunnari Júlíussyni. „Þessi hugmynd kemur til þannig að ég sé málverk eftir skólabróður minn af Landvættunum og fannst því liggja beinast við að gera svona túra og taka fyrir einn landsfjórðung á hverju ári og hafa þá Landvættina sem ramma í kringum þetta,“ útskýrir hann og bætir við að sögurnar í kringum Landvættina séu það skemmtilegar að það verði að gera sögunni góð skil.

„Já, ég mun gera soltið mikið úr því og vera með skemmtilegar sögur í kringum þetta og kynna Íslendingasögurnar fyrir ferðamanninum.“

LAndvættir texti

 Örninn hefur flugið

Nýjustu draumaferðir Saltvíkur, Landvættirnar hefja göngu sína næsta sumar og er Norðurland fyrst á dagskrá.

„Ég geri ráð fyrir því að það verði mjög margir sem koma næsta sumar þegar við tökum Norðurlandið og verðum rúmlega mánuð á ferðinni. Þetta er svona frá 30-40 dagar hver landsfjórðungur og hver fjórðungur skiptist svo upp í 4-5 leggi,“ segir Bjarni Páll og ekki er laust við að hann sé þegar farinn að hlakka til.

„Þetta nýja ævintýri mun standa yfir næstu 4 árin þar sem við heimsækjum hvern fjórðung Íslands á hverju ári til kynnast landinu í nærmynd, norður, austur, suður og vestur,“ útskýrir Bjarni Páll og segir að áherslan verið á Norðurland sumarið 2025 í ógleymanlegri ferð.

„Riðið er á frábærum slóðum frá norðurströndinni til hærri slóða hins mikla norðurhálendis. Við munum fylgja sögulegum slóðum meðfram strandlengjum og ám, dölum og víðernum. Við munum heimsækja stórkostlega staði og segja sögur af fortíðinni,“ segir Bjarni Páll og bætir við að hann sé þess full viss að  Örn norðursins muni vaka yfir ferðalöngunum á ferð sinni.

Metaðsókn í sumar

Hestaferðir

Þá segir Bjarni Páll að sumarvertíðin líti ótrúlega vel út í ár enda metaðsókn.

„Þetta  lítur mjög vel út, það er svona 25% aukning hjá okkur, met sumar þetta árið þannig að maður er ekkert að kvarta,“ segir Bjarni Páll en megin þorri viðskiptavina hans eru erlendir ferðamenn eða um 90%.

Aðspurður segir hann að samsetning þjóðerna sé mjög blönduð. Fólk sé að koma mikið frá Skandinavíu, Miðevrópu en einnig komi mikið af Bandaríkjamönnum, eða 20-30 prósent. Og bókunarstaðna hafi aldrei verið betri.

„Það hefur ekki komið ein einasta afbókun. Þetta virðist vera mjög vinsælt,“ segir Bjarni Páll en stóru hestaferðirnar eru þær sem eru markaðsettar mest og vekja athygli. „Það er líka markmiðið að gera meira en bara hestaferð frá A-B Við fáum mikið af fyrirspurnum vegna þessara stóru ferða sem fá mikinn fókus. Þá kemur oft í ljós að það hentar ekki fólki að fara í svona langa og krefjandi ferð en þá bjóðum við bara upp á eitthvað einfaldara fyrir þá,“ segir Bjarni Páll.

Í Saltvík er einnig rekið gistiheimili en Bjarni Páll segir að hóparnir sem komi í hestaferðir gisti flestir í Saltvík, sérstaklega í minni ferðunum.

„Meira og minna þegar við erum með ferðir á heimaslóðum, þá gista hóparnir hjá okkur. Við höfum verið mikið með svona þriggja daga ferðir sem eru frá Saltvík, skoðunarferðir  til Goðafoss og farið í Sjóböðin og slíkt. Það er búið að vera mjög vinsælt, síðan í febrúar er ég búinn að vera með einhverja átta hópa í þessu,“ segir Bjarni Páll að lokum.


Athugasemdir

Nýjast