Allir hlægja á öskudaginn, segir einhvers staðar og það er óhætt að segja að akureysk ungmenni hafi haft ástæðu til brosa upphátt í dag, á öskudaginn. Börnin tóku daginn eldsnemma og héldu út í morguninn í alls kyns búningum, heimsóttu fyrirtæki, verslanir og stofnanir og tóku lagið í þeirri von að fá eitthvað góðgæti í staðinn. Víðast hvar var vel tekið á móti börnunum, sem þó höfðu lagt misjafnlega mikið í búninga og söngatriði. Allir reyndu þó að gera sitt besta. Leikfélag Akureyrar og Norðurorka leiddu saman hesta sína og buðu upp á kattarslag á flötinni neðan við Samkomuhúsið. Í Samkomuhúsinu var tekið vel á móti öllum syngjandi kátum sjóræningjum og landkröbbum. Krökkunum var boðið upp á svið til að syngja öskudagssöngva og samkeppni var í gangi. Mikill fjöldi barna var á ferð um miðbæinn og það sama var upp á teningnum á Glerártorgi, þar sem fram fór söngvakeppni og kötturinn var sleginn úr tunnunni. Hjá Blikkrás fór einnig fram árleg söngkeppni í tilefni dagsins og starfsfólkið tók virkan þátt og mætti einnig uppáklætt til starfa.