Allir aðilar bera nokkra ábyrgð á leka í Þórsstúkunni

Það er mat þeirra dómkvöddu matsmana, sem fengnir voru til að meta orsakir og afleiðingar leka í nýju áhorfendastúkunni á Þórsvellinum, að allir aðilar beri nokkra ábyrgð á því að svo illa fór að stúkan lekur. Ábyrgð verkfræðings er talin mest, eða 41%, ábyrgð verktaka/byggingarstjóra 27%, ábyrgð aðalhönnuðar 23% og ábyrgð verkkaupa/eftirlitsmanns 9%.

 

Matsmennirnir, Júlíus Sólnes prófessor og byggingarverkfræðingur og Snæbjörn Kristjánsson byggingarverkfræðingur, hafa áætlað kostnað vegna nauðsynlegra aðgerða og endurbóta. Heildarkostnaður við þær aðgerðir sem þeir leggja til er tæplega 15 milljónir króna og tjón verkkaupa er metið rúmlega 11 milljónir króna. Þar til frádráttar ætti að koma „eigin ábyrgð“ verkaupa/eftirlitsmanns sem nemur 9% eða 1,0 milljón króna. Áætlaður kostnaður við að fjarlægja sætisbekki og sætiseiningar og koma þeim fyrir aftur að lokinni viðgerð er um 5,5 milljónir króna.

 

Kostnaður við yfirborðsmeðhöndlun skáflatar í stúkunni er um 3,2 milljónir króna og kostnaður við viðgerðir innanhúss, spörtlun og málningarvinnu er um 1,3 milljónir króna. Matsmennirnir benda á í skýrslu sinni, að hér sé um grófa og ekki mjög nákvæma deilingu ábyrgðar að ræða, enda sé það frekar dómstóla að skera úr um slíkt ágreiningsefni. Það er Akureyrarbær sem matsbeiðandi en matsþolar eru byggingarfélagið Hyrna ehf., arkitektastofan Kollgáta ehf., og verkfræðistofan Mannvit, starfsstöð á Akureyri.“Í upphafi verks var tekin faglega röng ákvörðun um gerð mannvirkisins. Þegar hún lá fyrir, hefði átt að reyna að takast á við hana og finna tæknilega lausn til að tryggja, að þakplatan héldi vatni í veðri og vindum. Það var ekki gert og má kalla hönnunarmistök. Við framkvæmd verksins var aðhlynningu og eftirmeðhöndlun steypunnar í þakplötunnar að dómi matsmanna ekki sinnt nægilega vel, og eins vakna spurningar um gæði steypunnar, þ.e.a.s með tilliti til vatns-sementshlutfallsins,” segir m.a. í lokaniðurstöðu skýrsluhöfunda. Oddur Helgi Halldórsson formaður stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar segir að næsta skref sé að fara vel yfir matsgerðina og ræða við þá aðila sem að málum koma og ákveða framhaldið í samráði við þá.  

Nýjast