Allar manneskjur eru dýrmætar

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sóknarprestur á Húsavík
Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sóknarprestur á Húsavík

Þann 25. nóvember 2020, á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi hófst átakið ,,Roðagyllum heiminn” og því lýkur þann 10. desember en sá dagur er tileinkaður alþjóðlegum mannréttindum og er jafnframt alþjóðadagur Soroptimista. Átaksverkefnið lýtur að því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn konum víðsvegar um heiminn.


 

Það er virkilega þakkarvert að Alþjóðasamband Soroptimista hefur í áratugi barist gegn kynbundnu ofbeldi.

Við erum svo lánsöm hér á svæðinu að Soroptimistakonur á Húsavík eru virkar í því verkefni og hafa staðið fyrir viðburðum til að vekja okkur öll til vitundar og hvetja okkur til að taka afstöðu gegn ofbeldi, bæði í orðræðu okkar dagsdaglega og í samskiptum. Kynbundið ofbeldi, ofbeldi almennt, felur í sér niðurbrot og sundrung á allan hátt; í samskiptum og á tengslum og niðurbrot og sundrung í sál manneskju. Við mótmælum því, við neitum að gefast upp í baráttunni við að útrýma því en hjálpumst að við að skapa veröld þar sem ofbeldi er stöðvað og komið í veg fyrir það. Niðurbroti og sundrung mætum við með því að vera meðvituð um aðstæður, vakandi yfir aðstæðum og kjörum annarra og brýnum okkur sjálf, börnin okkar og samferðarfólk í samtölum okkar og samskiptum til að láta okkur alltaf varða málefnið og standa ekki á sama. Sýnum hvert öðru virðingu og umhyggju og ölum börnin okkar upp við þau sömu gildi, eins og hugrekki, mannvirðingu, vinsemd og samstöðu.

Séra Sólveig Halla Kristjánsdóttir

 

Í augum Guðs

ert þú ekki mistök.

Ekki einhver fánýtur,

lítilsverður einstaklingur.

Ekki eins og hvert annað óhapp,

misheppnaður aðskotahlutur eða slys.

Heldur ljóð

sem hann hefur ort.

Ástarljóð

ort af Guði,

sem ætlað er

að bera birtu og yl

inn í aðstæður fólks.

Stattu því vörð um sjálfan þig

og lífið sem í þér býr.

Höf: Sigurbjörn Þorkelsson, úr bókinni Svalt.

 

 


Athugasemdir

Nýjast