Aldrei verið fleiri skiptinemar við HA

Á kynningardeginum í HA. Mynd: Unak.is
Á kynningardeginum í HA. Mynd: Unak.is

Í vikunni fór fram kynningardagur fyrir erlenda skiptinema og aðra erlenda nemendur sem eru í námi við Háskólann á Akureyri (HA).

Skiptinemar í reglubundnu skiptinámi á haustönninni hafa aldrei verið fleiri eða 49 talsins og koma þeir frá 16 löndum. Flestir koma frá Evrópu en einnig eru dæmi um skiptinema frá Kína, Kanada og Bandaríkjunum.

Flestir skiptinemarnir eru að taka áfanga innan hug- og félagsvísindasviðs en þar er mesta úrvalið af námskeiðum sem kenndir eru á ensku. Alþjóðaskrifstofa HA vinnur einnig með deildum innan skólans við að aðstoða nemendur frá erlendum samstarfsskólum að komast í verknám og nýtur það aukinna vinsælda.

Nú á haustönn eru níu nemendur að koma til landsins til að dvelja í lengri eða skemmri tíma í verknámi í gegnum HA. Heimsóknum erlendra kennara og starfsmanna hefur einnig fjölgað ár frá ári og eru um fimmtán slíkar heimsóknir á dagskrá nú í haust. Jafnframt eru erlendir nemendur skráðir í heimskautaréttarfræði (Polar Law) en þar fer allt námið fram á ensku.

 

Nýjast