Aldrei verið fleiri nemendur við Háskólann á Akureyri
Í kjölfar frétta um kjaradeilu kennara hafa fjölmiðlar undanfarna daga haldið því á lofti að nýliðun í kennarastéttinni sé á undanhaldi, þ.e. að kennaranemum fari fækkandi. Ef marka má nýjustu tölur frá Háskólanum á Akureyri (HA), virðist sem svo að sá ágæti skóli sé ekki tekinn með í jöfnuna.
Á vef HA kemur nefnilega fram að kennaranemar hafa aldrei verið fleiri við skólann eftir að fimm ára kennaranámið fór af stað. Það sama gildir um heildafjölda nemenda skólans. Þeir hafa aldrei verið fleiri en nú.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, segist vera sérstaklega ánægður með þann stóra, öfluga og fjölbreytta nemendahóp sem nú stundar nám við skólann. „Háskólinn verður 30 ára á næsta ári og má ætla að fæstir hefðu trúað því á fyrstu árum skólans að hann næði þessum mikla árangri á ekki lengri tíma“, segir rektor á heimasíðu skólans.
Nemendur við HA eru nú 1951 talsins en voru 1833 á sama tíma í fyrra. Þyngst vegur nýtt nám í lögreglufræði sem hófst á haustmisseri, en það stunda 122 nemendur. Ef lögreglufræðinýnemar eru frátaldir heldur aðsókn í skólann dampi þrátt fyrir metár í fyrra.
Tölur um sókn í kennaranám villandi
Haustið 2016 hófu um 130 manns nám við kennaradeild skólans sem leiðir til leyfisbréfs á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi. Bragi Guðmundsson, formaður kennaradeildar skólans, segir að þær tölur sem hafi komið fram í fjölmiðlum undanfarna daga um sókn í kennaranám séu villandi. Hann telur það áhugaverða breytingu að síðustu árin hafi sífellt fleiri komið í háskólann með grunn- eða meistaragráðu og bætt við sig námi til kennararéttinda í leik-, grunn- eða framhaldsskólum. „Það er nokkuð sem sumir forkólfar kennara eru lítt hrifnir af og vilja helst ekki ræða, en glöggir menn sáu þetta fyrir þegar lenging námsins kom til umræðu og síðar framkvæmda. Ungt og skynsamt fólk áttar sig auðvitað á þessum möguleika og sér fleiri atvinnumöguleika en ella með þessa samsetningu náms að baki við endanlega brautskráningu úr háskóla,“ segir Bragi á heimasíðu HA.
Vegna lengingar grunnnámsins úr þremur árum í fimm og tilfærslu útgáfu leyfisbréfa til kennslu frá ráðuneyti til háskólanna er erfitt að bera saman tölur um aðsókn í kennaranám. Nokkur lægð varð í kjölfar lengingarinnar á árunum 2012–2013, en síðan þá hefur nemum í kennarafræði við HA fjölgað jafnt og þétt.
Þarf að laða fleiri karla til háskólanáms
Konur hafa löngum verið í miklum meirihluta sem nemendur í kennarafræðum. Eyjólfur Guðmundsson, rektor, segir að konur séu 80% af nemendum skólans. Hann segir það sérstakt ánægjuefni hversu konur hafa verið duglegar að sækja í nám við skólann. Hins vegar sé það áhyggjuefni að ungir karlmenn sæki minna í háskólanám. Því sé ljóst að Háskólinn á Akureyri þurfi að skoða það sérstaklega hvað unnt sé að gera til þess að laða karlmenn til háskólanáms, bæði í kennaranám og aðrar greinar sem háskólinn býður upp á. Þá má geta þess að sérstakt átak er í gangi á vegum heilbrigðissviðs sem gengur út á að fjölga körlum í hjúkrunarnámi en í kennaranáminu er sama misvægi uppi á teningnum.