Aldrei slegið í október fyrr

Stefán Rúnar Sævarsson bóndi á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi  lauk slætti í dag, hann sló líka á mi…
Stefán Rúnar Sævarsson bóndi á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi lauk slætti í dag, hann sló líka á miðvikudag og fékk um 100 rúllur í þessum síðbúna haustslætti. Mynd Guðmundur Rafn Guðmundsson

Stefán Rúnar Sævarsson bóndi á Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi hefur náð um það bil 100 rúllum með slætti á miðvikudag og í dag, föstudag en þá lauk slætti formlega í ljómandi fínu veðri og 10 stiga hita. Farið var yfir um 30 hektara af túnum í þessum síðbúna slætti. „Ég hef aldrei slegið í október fyrr,“ segir Stefán

Hann sló síðast 10 ágúst síðastliðinn, en svo voru alls kyns verkefni önnur sem þurfti að setja í forgang, eins og að taka upp kartöflur, auk þess sem veður var ekki alltaf hliðhollt. Undanfarið hefur verið gríðarleg rigningartíð sem hentar ekki fyrir heyskap að hausti. „Ég átti alls ekki von á að þessi rigningarkafli yrði svona langur, en það var bara allt í einu þegar vel var liðið á september komið haugagras. Gæti verið að áburður hafi farið að virka í rigningartíðinni,“ segir Stefán og bætir við að nú sé hann steinhættur.

„Ætli maður splæsi ekki á sig soðibrauði með hangikjöti,“ svarar Stefán spurður hvort ekki ætti að halda upp á daginn og heyskaparlokin.


Athugasemdir

Nýjast