Aldrei meiri umferð um Vaðlaheiðagöng en á liðnu ári

Ný verðskrá hefur tekið gildi í Vaðlaheiðagöng, stök ferð kostar nú 1.650 krónur, en verðið hefur ve…
Ný verðskrá hefur tekið gildi í Vaðlaheiðagöng, stök ferð kostar nú 1.650 krónur, en verðið hefur verið hið sama frá því göngin voru tekin í notkun, 1.500 krónur. Mynd mth

„Heilt yfir gekk reksturinn vel á liðnu ári,“ segir Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðaganga, en umferð um göngin hefur aldrei verið meiri frá því göngin voru tekin í notkun. Alls voru farnar um 550 þúsund ferðir um Vaðlaheiðagöng árið 2022 sem er 4% aukning miðað við árið á undan. Í rekstraráætlun hafði verið gert ráð fyrir 2,8% aukningu milli ára að sögn Valgeirs, „þannig að þetta er meira en við áætluðum og er ánægjulegt.“

Langtímalán Vaðlaheiðarganga er verðtryggt og segir Valgeir að forsendur fyrri rekstraráætlana hafi ekki gert ráð fyrir svo mikilli verðbólgu eins og verið hefur síðustu 18 mánuði og því hafi Stjórn Vaðlaheiðarganga ákveðið að hækka verðskrá í þeirri vona að auka tekjur félagsins til að greiða niður lánið. Sé umferð ársins 2022 lögð til grundvallar varðandi hlutfall umferðar í hverjum verðflokki þá er vegin verðskráhækkun um 8%.

Mikil sala fyrir áramót

Ljóst er að sögn Valgeirs að margir notuðu tækifærið og keyptu fyrirframgreiddar ferðir nú síðustu viku ársins þar sem sala á ferðum var þrisvar sinnum meiri en yfir hefðbundna viku á þessum árstíma. Hann segir langflesta greiða með fyrirframgreiddum ferðum, en hækkun á þeim ferðum nemur 5%, 40 krónum á ferð, fer úr 800 krónum í 840 krónur ferðin.

Stakar ferðir fólksbíla hafa kostað 1.500 krónur hverf ferð og hefur það verð gilt frá upphafi, en hækkar nú í 1.650 krónur ferðin. Hækkun nemur 10%.

Minnst er hækkun í flokki ökutækja 3,5-7,5 tonn en þar hækkar hver ferð úr 2.500 í 2.600 krónur, sem er 4% hækkun. Stór ökutæki þyngri en 7,5 tonn hækka um 5,8% eða úr 5.200 krónum í 5.500 krónur hver ferð.


Athugasemdir

Nýjast