Aldrei hafa fleiri nemendur lært ensku í grunnskólum landsins
Aldrei hafa fleiri nemendur lært ensku í grunnskólum landsins, en 78,9% grunnskólanemenda læra ensku, samkvæmt tölum sem Hafstofan hefur tekið saman. Tölurnar eru birtar í tilefni af degi tungumála í Evrópu 26. september. Að meðaltali læra framhaldsskólanemendur 1,41 tungumál skólaárið 2010-2011, sem er svipað og undanfarin ár. Skólaárið 2010-2011 voru nemendur í kínversku bæði í grunnskólum og framhaldsskólum á Íslandi.
Nemendur hefja nú flestir dönskunám í 7. bekk, við 12 ára aldur. Í mörgum skólum geta nemendur sem hafa kunnáttu í norsku eða sænsku, valið þau tungumál í stað dönsku. Á síðastliðnu skólaári lærði 101 barn sænsku frekar en dönsku og 78 börn lærðu norsku. Nemendur í sænsku og norsku hafa ekki verið færri frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofunnar árið 1999. Grunnskólanemendum sem læra þrjú tungumál hefur farið fækkandi frá skólaárinu 2001-2002 þegar þeir voru flestir (1.656 nemendur, 3,8% nemenda). Síðastliðið skólaár lærðu 720 grunnskólanemendur þrjú tungumál, 1,7% nemenda. Þriðja tungumál er yfirleitt kennt sem valgrein í íslenskum grunnskólum. Alls lærðu 463 grunnskólanemendur spænsku, 179 börn þýsku, 174 börn lærðu frönsku og 23 börn kínversku. Ekki hafa áður verið grunnskólanemendur í kínversku frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands.
Skólaárið 2010-2011 lögðu 18.520 nemendur á framhaldsskólastigi stund á nám í erlendum tungumálum eða 73,7% nemenda á þessu skólastigi. Þetta er svipað hlutfall og undanfarin ár en skólaárið 2009-2010 voru 73,4% framhaldsskólanema skráðir til náms í einhverju erlendu tungumáli. Nemendum í tungumálum sem fáir læra hér á landi hefur fjölgað. Í fyrsta sinn frá upphafi gagnasöfnunar Hagstofu Íslands árið 1999 læra íslenskir framhaldsskólanemendur kínversku en 18 nemendur lærðu kínversku á síðasta skólaári. Þá hefur nemendum sem læra japönsku í framhaldsskólum fjölgað verulega. Alls stunduðu 147 nemendur nám í japönsku skólaárið 2010-2011 en voru 114 árið á undan. Að auki lærðu 29 nemendur rússnesku í framhaldsskólum skólaárið 2010-2011 en voru 11 árið á undan. Nemendur sem læra íslensku sem erlent tungumál voru 368 og hefur fækkað um 47 frá fyrra skólaári.