Aldrei fleiri farið um Víkurskarð
Á vef Rúv kemur fram að hátt í 100 þúsund ökutækjum var ekið um Víkurskarð í júlímánuði á þessu ári, Það gerir um 17,4% aukningu á milli ára. Aldrei hafa fleiri keyrt skarðið í einum mánuði frá því að mælingar hófust.
Víkurskarð er því næst fjölfarnasti fjallvegur landsins á eftir Hellisheiði.
Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni hefur um 340 þúsund bílum verið ekið um skarðið frá áramótum þar af var 99.710 ökutækjum ekið um Víkurskarð í júlí. Tæplega hálf milljón ökutækja fóru um Víkurskarð á síðasta ári og gerir Vegagerðin ráð fyrir að það met verði slegið í október.
Líkt og annarsstaðar í vegakerfinu hefur umferð á fjallvegum á Hringveginum aukist verulega undanfarin ár. Hellisheiðin er langumferðarmest, þar sem um 6.800 ökutækjum var ekið að meðalltali á dag á síðasta ári. Víkurskarð er næstmest ekni fjallvegurinn, með um 1350 bíla á dag að meðaltali í fyrra.
-epe