Alcoa segir orkusölumál á Norðurlandi hafa tekið nýja stefnu
Í viðtölum sagði ráðherrann að hann teldi ekki að Alcoa myndi taka ákvarðanir um uppbyggingu álvers á Bakka á næstu árum. Því hefði verið mikilvægt að leita annarra fjárfestingartækifæra fyrir atvinnuuppbyggingu á Bakka. Af þessu tilefni vill Alcoa á Íslandi taka fram: "Við höfum frá upphafi skoðað byggingu álvers á Bakka af fullri alvöru og höfum varið umtalsverðum tíma, orku og fjármunum til undirbúnings verkefnisins. Alcoa tekur ekki einhliða ákvörðun um hvort álver verður reist á Bakka eða ekki. Hér er um að ræða stórt verkefni og umfangsmikla fjárfestingu, sem aðeins getur orðið að veruleika með góðri samvinnu Alcoa, íslenskra stjórnvalda, viðkomandi sveitarfélaga og orkufyrirtækja, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í verkefni sem þessu. Við höfum bent á það frá byrjun að þróun verkefnisins réðist af því hvort næg orka verði tiltæk á svæðinu á samkeppnishæfu verði , ásamt því hvenær afhending hennar gæti farið fram. Íslensk stjórnvöld og Landsvirkjun hafa undanfarin tvö ár leitað annarra fjárfestingartækifæra en álvers, fyrir atvinnuuppbyggingu á Bakka og nýjustu fréttir benda til þess að orkusölumál á Norðurlandi hafi tekið nýja stefnu. Í ljósi þessa munum við meta hvaða áhrif það hefur á Alcoa og mögulega fjárfestingu á Bakka."